28.1.2019 | 17:13
Stefna ESB í orkumálum og hlýnun jarðar
Orkubúskapur
ESB er efnahagslegt stórveldi og hefur þá stöðu í heiminum vegna iðnvæðingar sinnar. Þessari stöðu verður umfram allt að halda, en það merkir, að iðnaðurinn verður að vera samkeppnishæfur við iðnað annarra svæða. Varðveisla þessarar samkeppnisstöðu gengur eins og rauður þráður í gegnum alla stefnumörkun ESB, sérstaklega í orkumálum þó því sé ekki mikið flaggað í opinberum málflutningi. Þar þykir vænlegra að leggja áherslu á baráttuna við hlýnun jarðar til að réttlæta þær ráðstafanir sem gerðar eru. Þannig hefur náðst betri árangur í að sannfæra fólk um að rétt sé að málum staðið.
Meðfylgjandi mynd sýnir hlut ESB í vinnslu og innanlandsnotkun ríkja heimsins (heimild EU; Energy in figures 2018) Þar kemur í ljós, að bandalagið var með 5,5% af framleiðslu heimsins en 11,9% af innanlandsnotkuninni 2016. Sama ár fluttu þeir inn 70,4% af gasi (LNG) og 61,2% af kolum (hörð kol). Bandalagið er því mjög háð innflutningi, mun háðari en helstu keppinautarnir Bandaríki NA og Kína.
Þetta er kvíðavænleg staða fyrir iðnveldi í í heimi með þverrandi orkulindir og ekki síður fyrir fjármálaveldið þar sem á iðnaðinn og byggir tilveru sína á honum. Bandalagið verður greinilega að minnka orkunotkun sína með því að hvetja til annars vegar orkusparnaðar og hins vegar öflugra rannsókna á nýjum orkulindum. Hvort tveggja næst fram með hækkun orkuverðs og boðun enn meiri hækkana, en það virkar vel í saman markaðshagkerfi.
Stór hluti eldsneytisnotkunar ESB fer til til vinnslu raforku og þar þykir vænlegast að ná góðum árangri þó aðrir geirar séu ekki undan skyldir. Bandalagið er með í gangi öflugar rannsóknir á hefðbundnum kjarnaofnum, sem beinast að því að fjöldaframleiða þá. Slík fjöldaframleiðsla gæti lækkað kostnað kjarnorkuvera um 20 til 30% hefur undirrituðum virst raunhæft af lestri á netinu. Bretar, sem nú eru á leið út úr bandalaginu hafa hug á annarri tækni, en stefna líka á fjöldaframleiðslu. Þá er bandalagið með í gangi heimsins stærsta rannsóknarverkefni á sviði kjarnasamruna.
Það tekur langan tíma að ná fram nauðsynlegum breytingum og aðlögun bæði almennings og iðnaðar. Á sama tíma þarf að halda uppi samkeppnisstöðu iðnaðarins gagnvart helstu keppinautum og það er ekki létt verk.
Hlýnun jarðar.
Það er ekki auðveldi að koma tímanlegum ráðstöfunum fram í ríkjum bandalagsins á grundvelli heimsendaspár um endimörk eldsneytisvinnslu, þar sem málflutningurinn mundi nánast hljóma sem uppgjöf fyrir hinu óhjákvæmilega. Þó engin dómur sé hér lagður á réttmæti kenningarinnar um hnattræna hlýnun á ábyrgð mannsins kemur hún nánast inn sem himnasending fyrir stjórnvöld ESB í stöðunni.
Því sem maðurinn veldur getur hann breytt. ESB hefur því tekið forystu í baráttunni gegn hlýnun jarðar og hefur gengið lengst þjóða í að lýsa yfir vilja til niðurskurðar á kolefnalosun út í andrúmsloftið. Þar er miðað við 27% niðurskurð fyrir 2030. Jafnframt hefur ESB gengið ötullega fram á loftslagsráðstefnum Sameinuðu þjóðanna og leitast við að fá aðrar þjóðir til að setja sér svipuð markmið. ESB mun þó ekki skuldbinda sig fyrr en aðrar þjóðir eru tilbúnar til þess líka. Helstu keppinautarnir Kína og USA er erfiðir í taumi. Kína hefur ekki tekið í mál að hefjast handa strax, en stendur þess í stað í stórfelldri uppbyggingu kolaorkuvera. Bandaríkjaþing hefur ekki tekið í mál að samþykkja neinar skuldbindingar, en þar hefur þó náðst verulegur árangur í niðurskurði kolefnalosunar enda mörg fylki Bandaríkjanna mjög ákveðin í þeim málum. þannig var frá Parísarsamkomulaginu gengið, að Obama forseti hafði vald til að samþykkja það og Trump hefur nú sagt sig frá því. Því hefur markmiðum Parísarsamkomulagsins ekki enn verið breitt í skuldbindingar eins og átti að gerast á loftslagsráðstefnu í Póllandi fyrir nokkru.
Það er ekki um það deilt, að jörðin hefur hlýnað á undanfarinni öld, en stóru spurningunni, hve mikið af þeirri hlýnun er vegna athafna mannsin hefur þó ekki verið svarað á óyggjandi hátt. Margir þeirra vísindamanna sem hafa sett sig inn í kenninguna og hafa staðgóða þekkingu á eðlisfræði og stærðfræði telja ekki vera um neina sönnun að ræða fyrir þeim tölum sem nefndar hafa verið um áhrif losunar gróðurhúsagasa, en nú er helst rætt um 2,5°C í því sambandi ef ekki eru gerðar róttækar ráðstafanir. Þessir menn vilja láta báða hópa njóta vafans, þá sem telja allt þetta mál stórkostlega blekkingu eða áhrifin svo lítil, að maðurinn geti ekkert gert sem um munar til að minnka þau og hina sem leggja fullan trúnað á kenninguna.
Svo er það stóri hópurinn sem ekki hefur þá menntun á nákvæmlega réttum sviðum að þeir telji sig geta lagt óháð mat á hlutina. Þeir verða að velja sér aðila til að trúa og Sameinuðu þjóðirnar með loftslagsnefndina í broddi fylkingar er stórt nafn í því samhengi.
Loftslagsnefndin, IPCC (Intergovernmental Panel on Climate Change) er alþjóðleg stofnun, sett á fót 1988 af umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna (UNEP) og alþjóða veðurfræðistofnuninni (WMO) til að sjá þjóðum heims fyrir skýrri sýn á stöðu þekkingar og vísinda er lúta að veðurfarsbreytingum ásamt afleiddum umhverfisáhrifum og efnahagslegum samfélagsáhrifum þeirra. Þessi aðgerð WMO og UNEP var samþykkt af allsherjarþingi SÞ sama ár. IPCC fer yfir og metur allt hið nýjasta af vísindalegu framlagi heimsins á sínum sviðum, en framkvæmir hvorki neinar rannsóknir sjálft, né hefur eftirlit með gögnum eða grunn stærðum. Aðildarríki eru 195. Þar koma saman hin tæknivæddu iðnríki sem vilja tryggja áframhald menningar sinnar, sem byggir á mikilli orkunotkun (m.a. ESB-ríkin), ríki sem eru að ná iðnríkjunum vilja tryggja, að þau geti áfram farið sínu fram og ríki sem eru efnahagslega illa stödd sækjast eftir stuðningi. Það fer ekki hjá því, að þarna sé þung pólitísk undiralda.
IPCC gefur reglulega út úttektarskýrslur þá síðustu, AR5 árið 2014. AR6 mun koma út 2022 og næsta loftslagsráðstefna verður 2023. Úttektarskýrslurnar greina frá vinnu innan þriggja sérhæfðra vinnuhópa, um vísindalegan grundvöll, afleiðingar breytinga og mildandi áhrif. Auk þess er gefin út samantekt fyrir stefnumótendur og er það áhrifamesti partur skýrslunnar og sá partur sem mest endurspeglar stefnu IPCC.
Fjölmiðlar sækjast mest eftir að birta niðurstöður um hrikalegar afleiðingar breytinga og gera þá í leiðinni harðar kröfur um mildandi ráðstafanir. Þetta ásamt því, hvernig stjórnmálaöfl hafa nýtt sér þetta starf hefur valdið því, að boðun og eftirfylgni baráttunnar gegn hlýnun jarðar hefur fengið á sig trúarlegan blæ, sem hefur skaðað hið vísindalega grundvallar starf sem þarna fer fram og ef til vill skekkt áherslur í baráttunni. Þannig sátu meðal annars rannsóknir um þátt úthafanna í loftslagsbreytingum lengi á hakanum og ráðstafanir í raforkugeiranum hafa reynst bera minni árangur en almenningur hefur haft ástæðu til að vona. Alt er þetta að líkum þegar þessi vettvangur er orðið undirlagður pólitískri baráttu ríkja heims um efnahagslega stöðu.
Vísindamenn hafa á áranna rás töluvert lækkað mat sitt á umfangi þeirrar hlýnunar sem losun gróðurhúsagasa veldur, en enn hefur mikilvægustu spurningunum þó ekki verið svarað svo að svarið geti talist vísindalega sannað, en þær eru: 1) Hve mikil er ábyrgð mannsins á hlýnun síðustu aldar; 2) hvað getur hann mildað áhrif gróðurhúsagasanna mikið með ráðstöfunum sínum og 3) hvert er svið áhættunnar af samanlögðum áhrifum náttúrunnar og aðgerðum manna.
Í samantekt IPCC á AR5 er fyrstu spurningunni svarað á þann veg, að yfirgnæfandi líkur séu á, að meir en helmingur hlýnunar síðustu aldar séu af manna völdum. Þegar þess er gætt, að enn hefur ekki tekist að finna stærðfræðilega lýsingu á áhrifum sjávar til að nota í loftslagslíkönum og heldur ekki á áhrif sólar og skýjafars er þetta ekki mjög sannfærandi svar, en fyrir hinn almenna mann er það mjög gildishlaðið.
Íslensk sjónarmið
Á Íslandi hefur lengi verið mikill vilji til að bregðast við hlýnun jarðar með minnkun á notkun eldsneytis og fleiri ráðstöfunum. Hlýnunin er þó aðeins smávægilegt vandamál hér. Okkar mál hafa frekar snúist um að nýta þau gæði sem hlýnunin hefur í för með sér eins og göngur nýrra fiskistofna á miðin og nýting aukinnar jökulbráðnunar í ám landsins. Til dæmis tekur Landsvirkjun, að tillögu þess sem þetta skrifar mið af hlýnandi veðurfari við áætlanir sínar um orkugetu framtíðar.
ESB stjórnar hækkun orkuverðs vegna hlýnunar hjá sér með álögum og þær hækkanir eru ótímabærar fyrir okkur. Þó ESB sé mikilvægur markaður þá er afgangurinn af heiminum okkur enn mikilvægari og við þurfum ekki síður að gæta samkeppnistöðu okkar í þeim heimshlutum.
Þurrð eldsneytisbyrgða heimsins verður vandamál hér eins og annarstaðar þegar eldsneytisverð fer að hækka, jafnvel mjög hratt og skyndilega eins og markaðsverð gera iðulega þegar framboð vöru minnkar. En það gildir sama hér og varðandi hlýnunina, vandamálið er ekki tengt raforkugeiranum, heldur samgöngum, fiskveiðum og flutningum milli landa. Þar þurfum við að láta til okkar taka og það mun kosta ærna fjármuni.
Við keppum ekki á alþjóðavettvangi með orkuverðum ESB eins og orkupakkinn mun þvinga okkur til þegar fram líða stundir. Orkuverð hér verða að taka mið af samkeppnistöðu á öðrum vettvangi og þar mun okkur ekki veita af því forskoti sem auðlindir okkar gefa okkur. Við getum því ekki átt fulla samleið með ESB í þessu máli og verðum að hafna þessum pakka.
Um bloggið
Elías B Elíasson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.