Færsluflokkur: Dægurmál

Að selja ofan af sér vald yfir landinu undir fótum okkar

Í Reykjavíkurbréfi morgundagsins gat höfundur þess, að nýlega hefði það verið á dagskrá fundar í bústað forsætisráðherra á Þingvöllum, að undirbúa breytingar á stjórnarskrá  þannig að auðveldara væri að ganga í ESB. Þetta vakti mér ugg. Ekki vegna þess, að ætlunin væri að ganga í ESB sem fyrst, heldur hins, að ætlunin væri að breyta stjórnarskrá í þá átt, að auðveldara yrði að samþykkja valdaframsal og þar með ýmsar tilskipanir ESB á Alþingi, án þess að stjórnarskráin þvældist fyrir.

Í fréttum undanfarið hefur nokkuð verið sagt frá kaupum útlendra fjárfesta á bújörðum þar sem laxveiðiréttindi eru í góðum veiðiám, eða þar sem vænlegt er að reisa hótel og hafa ofan af fyrir ferðamönnum. Ljóst er af fréttum, að margir horfa uggandi á þessa þróun, enda sagt að erlendir aðilar eigi orðið um þriðjung af landbúnaðarjörðum Íslands. Það hefði verið auðvelt, þegar gengið var til samninga um EES að setja einhverjar skorður eins og kvaðir um búsetu á kaupendur jarða eins og tíðkast í öðrum löndum, en þá var forsjáin ekki fyrir hendi. Það virðist einnig af sem áður var, þegar allt var gert sem hægt var til að hindra kínverskan fjárfesti í að kaupa eina stærstu jörð landsins og það tókst.

Hraði þessarar þróunar jókst þegar ferðamannastraumurinn fór stjórnlaust vaxandi og enn hafa yfirvöld ekki náð tökum á atburðarásinni í þeim atvinnuvegi. Þarna er þó ekki stjórnvöldum einum um að kenna. Forsprakkar greinarinnar eiga einnig verulega sök með því þeir hafa af skammsýni þvælst fyrir öllum tilraunum stjórnvalda til að afla tekna af þessum atvinnuvegi svo þau geti komið við einhverju skipulagsvaldi og látið fé fylgja til uppbyggingar nauðsynlegra innviða. Nú eru þessir sömu forsprakkar að missa tækifærin úr höndum sér til erlendra fjárfesta sem hafa ótakmörkuð fjárráð.

Á sama tíma virðist það helsta áhugamál náttúruverndarsinna, að koma undir sína stjórn öllu ósnertu víðerni landsins í nafni friðunar svo það verði ekki virkjað, en horfa fram hjá því, að klossaklæddir fætur ferðamanna geta slitið landi ekki síður en bíldekkin séu þeir nógu margir. Þessir ferðamenn virðast aukin heldur líta svo á, að á ósnertu víðerni geti þeir hent rusli og gengið örna sinna að vild og gera reyndar engan greinarmun á ósnertu víðerni og ræktarlandi bænda ef því er að skipta.

Náttúruverndarmenn sjá heldur engin tækifæri í því, að hafa arðbæra virkjun við eða inni á friðlendum, þar sem skylda mætti virkjunaraðilinn til að styðja við tjaldstæði, ferðamannaskála og aðra aðstöðu og létta þannig verulegu álagi af öðrum hlutum friðlandsins.

Með samþykkt orkupakka ESB, sem stjórnvöld hafa nú orðið að fresta í nokkra mánuði færist þessa sama hætta yfir orkuauðlindir Íslendinga, að erlendir fjárfestar muni sækjast eftir aðgangi að auðlindum og virkjunum um leið og orkuverð á Íslandi fer að hækka. Hrunið setti að vísu þúfu í braut þeirrar þróunar, en hækkandi orkuverð með markaðsvæðingu og tengingu með sæstreng mun til lengri tíma slétta aftur þá þúfuna.

Það, hvort öll þessi óforsjá stafar af óskum valdamikilla aðila í þjóðfélaginu um að þrýsta okkur inn í ESB, hvort stjórnvöld hafi ekki tíma til að hugsa þessi mál vegna anna við að innleiða tilskipanir ESB, eða hvort um er að ræða hreinan heimóttarskap getur legið milli hluta. Það virðist alla vega liggja meira á að gera ráðstafanir til að stjórnvöld þurfi ekki ætíð að missa úr höndum sér stjórn á allri atburðarás varðandi nýtingu þessa lands, sem er heimkynni okkar fremur en undurbúa auðveldara afsal á rétti til landsins og verðmæta þess til erlendra fjárfesta.


Eitt ríkjasamband, ein regla, ein forsætisnefnd

Eftir því sem árin líða finnst manni draumar helstu stjórnenda og stefnumótenda ESB sækja meir og meir í þá hugsýn sem ofanritaður titill lýsir og þessir draumar endurspeglast bæði í þeim viðbrögðum sem sjást þegar einhver ógn gerir vart við sig og því hvernig reynt er að gera EFTA löndin eins lík ESB og hægt er, en þar ræður ESB ferðinni. Sífellt oftar heyrast talsmenn ESB segja, við þurfum að þjappa okkur saman og fela leiðtogum okkar meiri völd. Hvað okkur á hrærir á stjórnarskráin að leggja línurnar um það, hve mikil völd má framselja til ráðamanna annarra landa, en í ljósi síðustu atburða á þessu sviði má spyrja hvort hún sé raunverulega virk lengur. 

Þegar þetta er ritað er nýlokið fyrir Alþingi meðferð frumvarps um persónuvernd, sem innleiðir lög ESB um þetta mál. Þessi lög munu að margra mati stangast á við Íslenska stjórnarskrá að því leyti, að þau fela erlendri stofnun dómsvald á Íslandi. Önnur lög eru í bígerð, en það eru lög um verslun með raforku, sem hafa sömu annmarka og hin fyrri. Fyrir fáum árum voru einnig staðfest lög sem hafa þessa sömu annmarka, en það eru lög um meðferð fjármagns. Þótt löginn hafi öll þennan sama galla í mismiklum mæli, þá er eðli þess sem þau fjalla um misjafnt og misjöfn þörf á að samræma löggæslu ríkja með þessum hætti. 

Þjóðir heims eru sjálfstæðar og hafa kringum sig landamæri svo hafa megi stjórn á fólki og varningi sem fer inn og út úr viðkomandi þjóðríki. Einn er þó sá hlutur sem ekki er unnt að hafa stjórn á með þessari aðferð, en það er fjármagn. Fjármagn, eða réttara sagt eigendur þess leita að bestu tækifærunum til ávöxtunar og virða þá engin landamæri. Fyrir því er eðlilegt, að ríkin leiti leiða  til að sameinast um lög og aðrar aðferðir til að hindra svik og hverskonar misbeitingu fjármagns. 

Persónuvernd er vaxandi krafa fólks í hinum vestræna heimi og beinist ekki hvað síst gegn hringsóli persónuupplýsinga á netmiðlun og notkun þeirra til að hafa áhrif á skoðanamyndun. Það skiptir einstakling á Íslandi auðvitað minna máli hvert orðspor hann hefur í Rúmeníu en hér heima auk þess sem einstaklingar í þessum löndum hafa misjafna þörf fyrir svona vernd, misjafnar ástæður til að krefjast hennar og misjöfn tök á að verja sig sjálfir. Það er því ekki jafn rík ástæða til að koma þessari vernd á með sameiginlegum lögum, en ástæða eigi að síður. 

Með rafmagn gildir allt öðru máli. Rafmagn fer ekki yfir landamæri nema þjóðirnar hafi komið sér saman um að tengja rafkerfi sín og raforkuflutningar eru undir fullri stjórn stofnana viðkomandi ríkja. Ástæðan fyrir setningu sameiginlegra laga um raforkuviðskipti er sú ein, að stjórn ESB telur hagkvæmara að láta eina stofnun stjórna öllu sem við kemur raforkuviðskiptum milli landa innan sambandsins. Ísland er ótengt við önnur lönd og sýnt hefur verið fram á, að þörf er á að hafa önnur grundvallar atriði á í heiðri á markaði hér en gildir í orkukerfi ESB. Það er því algerlega óskiljanlegt hvers vegna við eigum að innfæra lög ESB um viðskipti með rafmagn. Eina sjáanlega ástæðan sem hægt væri að heimfæra er draumurinn: "Eitt ríkjasamband, ein regla, ein forsætisnefnd" 

Öll krefjast þessi lög viðmikillar skýrslugerðar fyrir stjórnvöld ESB, svo hægt sé að greina virkni þeirra hér á landi. Þegar sett er upp leppstofnun fyrir ESB, það er stofnun sem er svo óháð stjórnvöldum, að hún má hvorki þiggja né leita fyrirmæla frá neinu innlendu stjórnvaldi og hefur fjárveitingar sínar beint frá Alþingi, þá eru fyrirmæli í lögunum um hvað skuli teljast verkefni stofnunarinnar og leiðbeiningar frá ESB um hvernig skýrslur skuli gerðar. Fái stofnuninn ekki nægar fjárveitingar til að skýrslur hennar verði óaðfinnanlegar getur forsætisnefndin að sjálfsögðu beitt sér og krafist úrbóta. Sú krafa hlýtur að lenda á Alþingi, sem hefur ekkert um þessa skýrslugerð að segja annað en veita fé. Er ekki þarna smá lýðræðishalli í viðbót við það sem fyrir er? 

Á sama tíma eru annir ráðuneyta við innleiðingu og þýðingu á tilskipunum og reglugerðum ESB orðið svo miklar að vöxtum, að lög á borð við þau sem nefnd eru hér komast ekki fyrir Alþingi fyrr en svo seint, að hvorki gefst tími fyrir stofnanir þjóðfélagsins að veita nauðsynlegar umsagnir, né Alþingi sjálft að yfirfara hin nýju lög á viðunandi hátt. Ekki gefst tími til raunhæfs kostnaðarmats og virðast starfsmenn ráðuneyta ófærir um, að leggja faglegt mat á afleiðingar laganna og bæði ófærir um að kynna sér og óviljugir að ræða faglega áhrif þeirra. Þarna virðist vera að koma upp blind hlýðni við boð ESB. 

Yfirleitt eru þýðingar á lögum ESB samþykktar í kippum og án allrar umræðu í fjölmiðlum. Nú eru þegnar þjóðfélagsins hver og einn að lögum skyldur til að vita sjálfur hvaða lagafyrirmæli gilda um hegðun hans, en fréttir samt ekkert af þessum breytingum nema þá í gegnum lögfræðing sinn hafi þegninn ráð á slíkum. Þegnar landsins hafa annað að gera en lesa Lögbirting í þaula alla daga. Þeir vakna svo upp við það einn góðan veðurdag, að hér er komið upp allt annað lagaumhverfi en þjóðin taldi vera, en það er einmitt sú þróun sem virtir fræðimenn á borð við Stefán Má Stefánsson og Björgu Thorarensen hafa varað sterklega við. 

Ísland er smáþjóð sem býr í erfiðu landi og þarf að eyða hlutfallslega meira fé en aðrar þjóðir í í hluti eins og að tryggja samgöngur milli þegna sinna, rækta jörðina og yfirvinna fjarlægð til markaða. Þessi þjóð hefur ekki efni á öllu því skrifstofuveldi sem núverandi umfang á sambandi okkar við ESB krefst. Þegar svo farið er að glitta í drauminn um eitt ríkjasamband, eina reglu og eina forsætisnefnd hjá embættismönnum skrifstofuveldisins, þá er það kvíðavænlegt.


Um bloggið

Elías B Elíasson

Höfundur

Elías B Elíasson
Elías B Elíasson
Verkfræðingur
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Framtið3
  • Framtið2
  • Framtið1
  • Framtið3
  • Framtið2

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 7
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 7
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband