Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Grein Ara Guðjónssonar: EES-samstarfið í uppnámi?

Greinin birtist í Viðskiptablaði Morgunblaðsins  3. Janúar 2019

Hofundur greinarinnar er lögmaður og yfirlögfræðingur Icelandair Group og verður því að teljast hluti af fjármálaelítunni hér á landi. Einn rauði þráðurinn í löggjöf ESB varðandi raforkumál er að tryggja fjárfestum viðunandi arð og nægar tryggingar svo einkafjármagnið leiti í greinina. Þetta hefur í för með sér hækkun arðkröfu í raforkugeiranum og þar með hærra raforkuverð en ella og jafnframt tryggingu þess, að notendur raforku, sem eru allir þegnar þjóðfélagsins greiða allan kostnað og bera alla áhættu af öllum fjárfestingum í greininni, annað hvort gegnum markaðsverð, gjaldskrár flutnings og dreififyrirtækja eða skatta. Löggjöf ESB útfærð að fullu hér á landi felur því í sér aukin tækifæri á sviði orkumála fyrir fjárfesta og fjármálastofnanir almennt, sem fá til meðhöndlunar það fé sem bundið er í eignum raforkufyrirtækjanna. Fjárfestar hér hafa lengi haft augastað á raforkufyrirtækjunum sem fjárfestingartækifæri og því eðlilegt að fulltrúar þeirra tali fyrir samþykkt þriðja orkupakkans, sem er töluvert skref í átt til þess að færa alla stjórn raforkuvinnslu hér á landi undir framkvæmdastjórn ESB.

Ari gerir lítið úr því,  að regluverkið myndi fela í sér of víðtækt valdframsal á fullveldi Íslands og telur það ekki standast lögfræðilega skoðun. Andstæðingar orkupakkans halda því hins vegar fram, að þriðji orkupakkinn ásamt viðbótum sem fram eru komnar feli í sér fullt valdaafsal á orkuauðlindum Íslands utan þess valds sem felst í eignarréttinum og verður að sýndarvaldi þegar tekið er tillit til allra þeirra ákvæða sem felast í öðrum þáttum EES-samningsins. Þetta er ekki lítið valdaafsal. Ari bergmálar þarna skoðanir sem hafa komið frá lögfræðingum á vegum ráðuneyta. Spyrja má hvort lögfræðingar almennt telji það í lagi að fullveldi Íslands sé afsalað að fullu með spægipylsuaðferðinni. Helstu stjórnlagafræðingar Íslands, prófessorarnir Stefán Már Stefánsson og Björg Thorarensen telja svo ekki vera.

Ari segir líka: „Meginmarkmið regluverksins er að tryggja frjálsa samkeppni með raforku og gas innan EESsvæðisins.“ Þetta er einfaldlega ekki rétt. Megin markmið regluverksins er að tryggja framkvæmdastjórn ESB alt vald yfir orkumörkuðum fram hjá öllum öðrum stjórnvöldum á ESB/EES-svæðinu.

Það er eitt einkenni málflutnings þeirra lögfræðinga sem vilja samþykkja þriðja orkupakkann, að þeir vitna sem minnst í þau lög sem verið er að innleiða og líta aðeins á einstök lagatæknileg atriði eins og hvort Orkustofnun sé sjálfstæð gagnvart ráðherra í úrlausn mála. Það þykir þeim ekki mikil breyting og Orkumálastjóri er þeim sammála þar um, enda kveðst hann hafa slíkt sjálfstæði í raun, þar sem pólitísk fyrirmæli ráðherra þyki yfirleitt óviðeigandi. Lítum aðeins nánar á þetta sjálfstæði.

Þegar Orkustofnun gegnir störfum landsreglara sem skilgreind eru í tilskipun nr. 72/2009 starfar hún ekki í sama lagaumhverfi og ella. Þá ber henni að vinna að þeim markmiðum sem eru tilgreind í tilskipuninni og tryggja framkvæmd stefnu ESB, hver sem íslensk stefna kann að vera og vinnur þau störf í raun undir eftirliti ACER. Í tilskipuninni segir í 35. grein:

  • „5. Til að vernda sjálfstæði eftirlitsyfirvaldsins skulu aðildarríkin einkum tryggja að:a) eftirlitsyfirvaldið geti tekið sjálfstæðar ákvarðanir, óháð öllum aðilum á sviði stjórnmála, og hafi aðskildar árlegar fjárúthlutanir, sjálfræði við framkvæmd fjárúthlutana, og fullnægjandi mannafla og fjármagn til að sinna skyldustörfum sínum“ [þýðing ESA].

  Þetta virðist vera allmiklu meira sjálfstæði en bara hvað varðar sjálfstæði gagnvart ráðherra í úrlausn mála og spurning er hvort ekki sé einnig um að ræða fullt sjálfstæði gagnvart Alþingi og þeim stefnumarkandi ályktunum sem þar kunna að verða gerðar. Það er líka spurning hvað gerist ef landsreglarinn fær ekki nægar fjárveitingar að eigin mati og framkvæmdastjórnar ESB. Mun þá framkvæmdastjórnin kvarta til ESA eða kæra til EFTA-dómstólsins? Sú leið er greinilega opin. Það er heldur ekki rétt hjá Ara, að Orkustofnun heyri undir yfirstjórn ráðherra í öllum málum. Þegar stofnunin starfar sem landsreglari hefur hún stöðu jafnfætis ráðherra, eða eins og einnig segir í 35. gr. tilskipunarinnar, þá skal hún vera „lagalega aðgreind og óháð öllum öðrum opinberum aðilum eða einkaaðilum að því er varðar starfsemi“ [þýðing ESA].

Hræðsluáróðurinn um útilokun okkar úr EES samstarfinu sem bergmálaður er í greininni hefur aldrei verið rökstuddur einu orði öðru en að við vitum ekki hvað muni gerast. Það er engan vegin eðlilegt né tákn um sjálfstæði þjóðar að hún afsali sér jafn takmarkalaust fullveldi yfir auðlindum sínum eins og gert er með þriðja orkupakkanum og viðbótum hans.

Ef Alþingi telur að samþykkt þriðja orkupakkans standist ekki stjórnarskrá og fellir hann, þá hefur hvorki ESB né aðrar þjóðir EES samningsins nein viðbrögð sem samræmast þeim samningi önnur en fella úr gildi viðaukann um orkumál gagnvart okkur. 


Borgarlínuumræðan

Það er nú ekki íkja langt síðan ritskúmur þessi fór að útbreiða skoðanir sínar á netinu, varlega í fyrstu, enda komu þá engin mótmæli sem heitið gat neinssaðar frá, bara hvatning. Þetta átti þó eftir að breytast. Skúmurinn gerðist djarfari, vakti aðra netbúa fjótt til andsvara og hefur nú að líkum fengið á sig stimpi, ef ekki marga slíka fyrir sérvisku og kreddufestu. 'Sic transit gloria mundi!

Ritskúmurinn leiddist síðan út í það, að fara að tjá sig á síðu þar sem rætt var um Borgarlínu og færðist nú fjör í leikinn. Nú skyldi sýna, að hér ríkti víðsýnið og rökhyggjan og enginn skortur skyldi vera á uppbyggjandi athugasemdum. Hmmm! Fljótlega hröklaðist fuglræfillinn út í horn undan athugasemdum eins og Sannaðu mál þtt", "Komdu með heimild", "Lestu þetta" og svo framvegis. Aumingja ritskúmurinn átti ekki nema eitt ráð, að mynda sér skoðun í kvelli og ybba síðan gogg af öllum mætti meðan hann tók pólinn í hæðina. 

Í ljós kom, að af nokkur hundruð meðlimum síðunnar voru fáir að tjá sig, flestir þeirra með fast mótaðar skoðanir og af þeim margir sem ekki vildu ræða málin, aðeins láta sína skoðun yfirgnæfa. Hæst lét þó í bergmálshellinum.

Borgarlínan er mál, sem þróað er hjá samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Þetta eru 6 sveitarfélög með það langstærsta, Reykjavík í broddi fylkingar. Hinum 5 minni stjórna að sögn sjálfstæðismenn, en Reykjavík stjórnar vinstri meirihluti undir forystu samfylkngarmannsins Dags B Eggertssonar, sem í þessu máli styðst mikið við félaga sinn í borgaratjórn, Hjálmar Sveinsson. Kynning malsins og ábyrgð lent fyrst á þessum mönnum. 

Þetta mál er spunnið úr tveim þáttum. Sá fyrr er gamall draumur um skjólgóða borg með mannlíf á götum og bíla í bakgrunni, með latttetorg á götuhornum þar sem sólin er ekki jafn velkomin skugganum, hvar sitja lepjandi listamenn fremjandi list hver fyrir annan. Þetta var hinn fjarlægi draumur hvers einasta íslendings sem hafði keypt sér bíldruslu svo hann mætti komast út á lóð sína i úthverfi og byggt þar hús sitt. Fyrst var flutt inn í hráa steypuna, pússað og málað og garðurinn ræktaður þar til upp var risin glæsihöll með kartöflubeð í bakgarðinum og krakkana kjagandi í kring og auðvitað engin tími fyrir drauminn. Flestir telja nú draum þennan óraunsæjan, nema hópur vinstri manna sem enn sér hann í hillingum og eiga nú sína fulltrúa í borgarstjórn í þeim Degi og Hjálmari.

Hinn þátturinn kemur frá vaxandi umferðateppum á samgönguæðum í Reykjavík sem hindrar íbúa grannbæjanna í því að komast til vinnu sinnar og börn þeirra í að komast til skóla. Þarna er augljóslega þörf á betri almenningssamgöngum og jafn augljóst er, að þær verða að fá meira rými á vegum. Í þessum þætti speglast hin upphaflega Borgarlínuhugmynd.

Þessir þættir spunnust saman og úr varð hrein ógn. Allt að 200 milljarða fjárfesting í léttlest, ekki bara milli Reykjavíkur og grannbæjanna, heldur einnig innan Reykjavíkur. Þessu fylgdi breytt skipulag og þétting byggðar umhverfis breytt mannlíf kringum glæsilegar biðstöðvar lestar eða hraðvagna. Það fyrsta sem vakti athyglina var þó ekki þetta, heldur hinn skefjalausi glansmyndaáróður og framsetning á tölum sem hlutu að villa um fyrir hverjum þeim sem reyndi að bera þær saman, eins og  greinilega var ætlast til.

Í þessum upprunalegu kynningum fæddust svo umræðupunktar og slagorð sem hafa bergmálað á vefnum síðan. Þar má nefna hluti eins og að breyta þurfi Reykjavík úr þeirri bílaborg sem hún er, að vegna Borgarlínu muni sparast stórkostlegir fjármunir í umferðamannvirkjum eins og mislægum gatnamótum, að þjóðin muni af sömu ástæðu spara ógrynni fjár með minni bílakaupum og það hafi verið stórkostle mistök á sínum tíma að skipuleggja Reykjavík sem bílaborg.

Fyrst í umræðunni var auglýsingaskýrslum um Borgarlínu skvett fram ásamt samskonar efni erlendis frá í löngum bunum. Allt fer þetta samt þverrandi nema bergmálið og frá sumum sést orðið ekkert nema bergmál og hnjóð á þá sem eru annarrar skoðunar. Þessir síðustu hafa þó heldur orðið minna áberandi og komið aðrir sem eru nægilega ósammála til að ræða málin, en nú með sýn á fleiri sjónarmið. Þeta er líklega það sem kallast að umræðan þroskist.

Hvað varðar Borgarlínuna sjálfa, þá hefur hún solítið breist. Hin dýra léttlest er ekki lengur upp á borðum og komið er í ljós, að Borgarlínan kemur ekki alfarið í stað ýmissa umferðamannvirkja. Hún er smátt og smátt að færast nær sinni upprunalegu hógværu hudmynd, að flytja fólk á milli staða á hagkvæman hátt, en þangað er nokkur spölur enn. Það hins vegar, hvernig þeir félagar Dagur og Hjálmar hafa stýrt málum hefur valdið þvi, að sennilega er töluvert erfiðara fyrir okkur að takast á við það, að hakda annarri umferð gangandi meðan við innleiðum einhvers konar Borgarlínu nú en var fyrir 5 árum síðan. Sennilega verðum við að taka svona 3 til 5 ár í, að ná stöðunni upp í viðunandi horf og átta okkur betur á framtíðinni.

  


Um bloggið

Elías B Elíasson

Höfundur

Elías B Elíasson
Elías B Elíasson
Verkfræðingur
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Framtið3
  • Framtið2
  • Framtið1
  • Framtið3
  • Framtið2

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband