6.1.2019 | 22:33
Grein Ara Guðjónssonar: EES-samstarfið í uppnámi?
Greinin birtist í Viðskiptablaði Morgunblaðsins 3. Janúar 2019
Hofundur greinarinnar er lögmaður og yfirlögfræðingur Icelandair Group og verður því að teljast hluti af fjármálaelítunni hér á landi. Einn rauði þráðurinn í löggjöf ESB varðandi raforkumál er að tryggja fjárfestum viðunandi arð og nægar tryggingar svo einkafjármagnið leiti í greinina. Þetta hefur í för með sér hækkun arðkröfu í raforkugeiranum og þar með hærra raforkuverð en ella og jafnframt tryggingu þess, að notendur raforku, sem eru allir þegnar þjóðfélagsins greiða allan kostnað og bera alla áhættu af öllum fjárfestingum í greininni, annað hvort gegnum markaðsverð, gjaldskrár flutnings og dreififyrirtækja eða skatta. Löggjöf ESB útfærð að fullu hér á landi felur því í sér aukin tækifæri á sviði orkumála fyrir fjárfesta og fjármálastofnanir almennt, sem fá til meðhöndlunar það fé sem bundið er í eignum raforkufyrirtækjanna. Fjárfestar hér hafa lengi haft augastað á raforkufyrirtækjunum sem fjárfestingartækifæri og því eðlilegt að fulltrúar þeirra tali fyrir samþykkt þriðja orkupakkans, sem er töluvert skref í átt til þess að færa alla stjórn raforkuvinnslu hér á landi undir framkvæmdastjórn ESB.
Ari gerir lítið úr því, að regluverkið myndi fela í sér of víðtækt valdframsal á fullveldi Íslands og telur það ekki standast lögfræðilega skoðun. Andstæðingar orkupakkans halda því hins vegar fram, að þriðji orkupakkinn ásamt viðbótum sem fram eru komnar feli í sér fullt valdaafsal á orkuauðlindum Íslands utan þess valds sem felst í eignarréttinum og verður að sýndarvaldi þegar tekið er tillit til allra þeirra ákvæða sem felast í öðrum þáttum EES-samningsins. Þetta er ekki lítið valdaafsal. Ari bergmálar þarna skoðanir sem hafa komið frá lögfræðingum á vegum ráðuneyta. Spyrja má hvort lögfræðingar almennt telji það í lagi að fullveldi Íslands sé afsalað að fullu með spægipylsuaðferðinni. Helstu stjórnlagafræðingar Íslands, prófessorarnir Stefán Már Stefánsson og Björg Thorarensen telja svo ekki vera.
Ari segir líka: Meginmarkmið regluverksins er að tryggja frjálsa samkeppni með raforku og gas innan EESsvæðisins. Þetta er einfaldlega ekki rétt. Megin markmið regluverksins er að tryggja framkvæmdastjórn ESB alt vald yfir orkumörkuðum fram hjá öllum öðrum stjórnvöldum á ESB/EES-svæðinu.
Það er eitt einkenni málflutnings þeirra lögfræðinga sem vilja samþykkja þriðja orkupakkann, að þeir vitna sem minnst í þau lög sem verið er að innleiða og líta aðeins á einstök lagatæknileg atriði eins og hvort Orkustofnun sé sjálfstæð gagnvart ráðherra í úrlausn mála. Það þykir þeim ekki mikil breyting og Orkumálastjóri er þeim sammála þar um, enda kveðst hann hafa slíkt sjálfstæði í raun, þar sem pólitísk fyrirmæli ráðherra þyki yfirleitt óviðeigandi. Lítum aðeins nánar á þetta sjálfstæði.
Þegar Orkustofnun gegnir störfum landsreglara sem skilgreind eru í tilskipun nr. 72/2009 starfar hún ekki í sama lagaumhverfi og ella. Þá ber henni að vinna að þeim markmiðum sem eru tilgreind í tilskipuninni og tryggja framkvæmd stefnu ESB, hver sem íslensk stefna kann að vera og vinnur þau störf í raun undir eftirliti ACER. Í tilskipuninni segir í 35. grein:
- 5. Til að vernda sjálfstæði eftirlitsyfirvaldsins skulu aðildarríkin einkum tryggja að:a) eftirlitsyfirvaldið geti tekið sjálfstæðar ákvarðanir, óháð öllum aðilum á sviði stjórnmála, og hafi aðskildar árlegar fjárúthlutanir, sjálfræði við framkvæmd fjárúthlutana, og fullnægjandi mannafla og fjármagn til að sinna skyldustörfum sínum [þýðing ESA].
Þetta virðist vera allmiklu meira sjálfstæði en bara hvað varðar sjálfstæði gagnvart ráðherra í úrlausn mála og spurning er hvort ekki sé einnig um að ræða fullt sjálfstæði gagnvart Alþingi og þeim stefnumarkandi ályktunum sem þar kunna að verða gerðar. Það er líka spurning hvað gerist ef landsreglarinn fær ekki nægar fjárveitingar að eigin mati og framkvæmdastjórnar ESB. Mun þá framkvæmdastjórnin kvarta til ESA eða kæra til EFTA-dómstólsins? Sú leið er greinilega opin. Það er heldur ekki rétt hjá Ara, að Orkustofnun heyri undir yfirstjórn ráðherra í öllum málum. Þegar stofnunin starfar sem landsreglari hefur hún stöðu jafnfætis ráðherra, eða eins og einnig segir í 35. gr. tilskipunarinnar, þá skal hún vera lagalega aðgreind og óháð öllum öðrum opinberum aðilum eða einkaaðilum að því er varðar starfsemi [þýðing ESA].
Hræðsluáróðurinn um útilokun okkar úr EES samstarfinu sem bergmálaður er í greininni hefur aldrei verið rökstuddur einu orði öðru en að við vitum ekki hvað muni gerast. Það er engan vegin eðlilegt né tákn um sjálfstæði þjóðar að hún afsali sér jafn takmarkalaust fullveldi yfir auðlindum sínum eins og gert er með þriðja orkupakkanum og viðbótum hans.
Ef Alþingi telur að samþykkt þriðja orkupakkans standist ekki stjórnarskrá og fellir hann, þá hefur hvorki ESB né aðrar þjóðir EES samningsins nein viðbrögð sem samræmast þeim samningi önnur en fella úr gildi viðaukann um orkumál gagnvart okkur.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Um bloggið
Elías B Elíasson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.