14.7.2018 | 15:12
Að selja ofan af sér vald yfir landinu undir fótum okkar
Í Reykjavíkurbréfi morgundagsins gat höfundur þess, að nýlega hefði það verið á dagskrá fundar í bústað forsætisráðherra á Þingvöllum, að undirbúa breytingar á stjórnarskrá þannig að auðveldara væri að ganga í ESB. Þetta vakti mér ugg. Ekki vegna þess, að ætlunin væri að ganga í ESB sem fyrst, heldur hins, að ætlunin væri að breyta stjórnarskrá í þá átt, að auðveldara yrði að samþykkja valdaframsal og þar með ýmsar tilskipanir ESB á Alþingi, án þess að stjórnarskráin þvældist fyrir.
Í fréttum undanfarið hefur nokkuð verið sagt frá kaupum útlendra fjárfesta á bújörðum þar sem laxveiðiréttindi eru í góðum veiðiám, eða þar sem vænlegt er að reisa hótel og hafa ofan af fyrir ferðamönnum. Ljóst er af fréttum, að margir horfa uggandi á þessa þróun, enda sagt að erlendir aðilar eigi orðið um þriðjung af landbúnaðarjörðum Íslands. Það hefði verið auðvelt, þegar gengið var til samninga um EES að setja einhverjar skorður eins og kvaðir um búsetu á kaupendur jarða eins og tíðkast í öðrum löndum, en þá var forsjáin ekki fyrir hendi. Það virðist einnig af sem áður var, þegar allt var gert sem hægt var til að hindra kínverskan fjárfesti í að kaupa eina stærstu jörð landsins og það tókst.
Hraði þessarar þróunar jókst þegar ferðamannastraumurinn fór stjórnlaust vaxandi og enn hafa yfirvöld ekki náð tökum á atburðarásinni í þeim atvinnuvegi. Þarna er þó ekki stjórnvöldum einum um að kenna. Forsprakkar greinarinnar eiga einnig verulega sök með því þeir hafa af skammsýni þvælst fyrir öllum tilraunum stjórnvalda til að afla tekna af þessum atvinnuvegi svo þau geti komið við einhverju skipulagsvaldi og látið fé fylgja til uppbyggingar nauðsynlegra innviða. Nú eru þessir sömu forsprakkar að missa tækifærin úr höndum sér til erlendra fjárfesta sem hafa ótakmörkuð fjárráð.
Á sama tíma virðist það helsta áhugamál náttúruverndarsinna, að koma undir sína stjórn öllu ósnertu víðerni landsins í nafni friðunar svo það verði ekki virkjað, en horfa fram hjá því, að klossaklæddir fætur ferðamanna geta slitið landi ekki síður en bíldekkin séu þeir nógu margir. Þessir ferðamenn virðast aukin heldur líta svo á, að á ósnertu víðerni geti þeir hent rusli og gengið örna sinna að vild og gera reyndar engan greinarmun á ósnertu víðerni og ræktarlandi bænda ef því er að skipta.
Náttúruverndarmenn sjá heldur engin tækifæri í því, að hafa arðbæra virkjun við eða inni á friðlendum, þar sem skylda mætti virkjunaraðilinn til að styðja við tjaldstæði, ferðamannaskála og aðra aðstöðu og létta þannig verulegu álagi af öðrum hlutum friðlandsins.
Með samþykkt orkupakka ESB, sem stjórnvöld hafa nú orðið að fresta í nokkra mánuði færist þessa sama hætta yfir orkuauðlindir Íslendinga, að erlendir fjárfestar muni sækjast eftir aðgangi að auðlindum og virkjunum um leið og orkuverð á Íslandi fer að hækka. Hrunið setti að vísu þúfu í braut þeirrar þróunar, en hækkandi orkuverð með markaðsvæðingu og tengingu með sæstreng mun til lengri tíma slétta aftur þá þúfuna.
Það, hvort öll þessi óforsjá stafar af óskum valdamikilla aðila í þjóðfélaginu um að þrýsta okkur inn í ESB, hvort stjórnvöld hafi ekki tíma til að hugsa þessi mál vegna anna við að innleiða tilskipanir ESB, eða hvort um er að ræða hreinan heimóttarskap getur legið milli hluta. Það virðist alla vega liggja meira á að gera ráðstafanir til að stjórnvöld þurfi ekki ætíð að missa úr höndum sér stjórn á allri atburðarás varðandi nýtingu þessa lands, sem er heimkynni okkar fremur en undurbúa auðveldara afsal á rétti til landsins og verðmæta þess til erlendra fjárfesta.
Um bloggið
Elías B Elíasson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Stjórnarskrármálið og umsóknin um inngöngu í ESB hafa verið og eru enn sama málið. Eftir að umsóknin var lögð á ís, þá hefur ekki heyrst orð um hana, en þess meira klifað á stjórnarskrárbreytingum. Versta er að fölk er búið að gleyma þessu, enda lagt kapp á að sýna því að hér sé um óskyld mál að ræða.
Hér er frétt frá upphafi árs 2009 þar sem þetta er kýrakýrt. Fyrirsögnin er meira að segja "Stjórnarskrá breytt vegna ESB."
http://www.visir.is/g/200938564492
Viljir þu skoða upphaf og þröun þessa máls í samhengi þá bendi ég þér á að smella á nafnið mitt hér fyrir neðan og lesa tvö efstu bloggin, sem rekja þetta mál og þær blekkingar, sem því fylgja. Allir tenglar og hlekkir eru á þau opinberu skjöl sem fylgja.
Jón Steinar Ragnarsson, 15.7.2018 kl. 14:31
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.