Framtíðin í orkumálum

Í dag vitum við það eitt um framtíðina, að hún er ekki eins og hún var vön að vera. Heimur framtíðarinnar verður meira að segja allt öðru vísi en heimurinn í dag. Þar með er ekki sagt, að við getum ekki lært af fortíðinni, en við getum ekki varpað því ljósi til framtíðar á þess að gera okkur grein fyrir þeim breytileika sem hún býður upp á og setja upp sviðsmyndir í samræmi við það.

Um aldamótin síðustu var reiknað með, að það tæki 3 til 6 ár að þróa byltingarhugmynd svo hún yrði nothæf í viðskiptum. Nú verðum við samkvæmt tilvísaðri grein að hugsa til styttri tíma.  https://hbr.org/2019/02/mckinseys-three-horizons-model-defined-innovation-for-years-heres-why-it-no-longer-applies  Fyrirtæki og þjóðríki ekki síður verða að vera vakandi fyrir því, að það sem áður gerðist í stökkum með nokkurra ára millibili gerist nú sem samfelld bylting. Byltingar eru hið nýja form hægfara þróunar. Þetta gildir almennt í tæknivæddum heimi og þar eru orkumál síst undan skilin.

Horfur um eldsneytisverð

Framtið1Nú í janúar kom út skýrsla um horfur í orkumálum (Energy Outlook 2019) frá upplýsingastofnun bandaríska orkumálaráðuneytisins (EIA, eða Energy Information Agency). Þar er að finna spá um verð Norðursjávarolíu  fram í tímann og gasverð í Bandaríkjunum. Eins og meðfylgjandi mynd sýnir, er allmikið bil milli útkomunnar í langri framtíð eftir því hvaða sviðsmynd er sett upp. Það getur orðið erfitt mál fyrir okkur sem aðra að þurfa að bregðast við sveiflum milli þeirra ytri marka sem myndin sýnir, en breytingarnar gætu orðið meiri en við höfum séð á líðandi áratug.

Á myndinni sýnir EIA grunnspá og fráviksspár eð tilliti til tveggja áhrifavalda sem eru annars vegar staðan í alþjóðastjórnmálum og hins vegar bor- og vinnslutækni með þeim áhrifum sem hún getur haft á vinnanlegar og hagkvæmar eldsneytisbirgðir jarðar.

Bor og vinnslutækni

Allir kannast við hina nýju vinnslutækni „fracking“ sem farið er að nota í Bandaríkjunum við vinnslu olíu. Tæknin byggir á að bora lárétt gegnum olíurík jarðlög og sprengja síðan út borholuna þannig að bergið umhverfis hana kurlast, olían lekur auðveldar inn í borholuna og er dælt upp. Þessi byltingarkennda tækni reyndist mjög hagkvæm við þau olíuverð sem voru fyrri hluta líðandi áratugar og allmikil reynsla er komin á notkun hennar og áhrif. Þessi tækni varð til þess, að Bandríkin hækkuðu nokkuð áætlanir sínar um vinnanlega olíu innan landamæra sinna.

Þessi tækni hefur hins vegar ekki verið notuð nægilega lengi í gasvinnslu til að hægt sé að gera sér góða mynd af áhrifum hennar. Því er óvissan meiri hvað gasið varðar sem veldur því, að ytri mörk verðáhrifanna verða hlutfallslega mun víðari fyrir gasverð en olíuverð.

Alþjóða stjórnmál

Staðan í alþjóða stjórnmálum hefur mikil áhrif á olíuverð, en minni á gasverð, en greinilegt er að þjóðir beita áhrifum sínum til hækkunar eða lækkunar á olíuverði í pólitískum tilgangi.

Þegar Bandaríkin lýstu yfir slitum á kjarnorkusamningi sínum við Rússa mátti taka það sem órækt vitni um að kalda stríðið milli þessara stórvelda væri aftur komið í fullan gang aftur og ljóst að það stríð er nú meira háð á hinum efnahagslega vettvangi en áður. Þar sem Rússar hafa miklar tekjur af útflutningi olíu er augljóst, að Bandaríkin munu beita áhrifum sínum til að lækka það og í því skini hafa þeir dregið úr eigin innflutningi og aukið eigin framleiðslu. Hvert framhald þeirrar þróunar verður á næsta áratug getur ráðist að miklu leyti af því hvort Trump nær endurkjöri 2020 og hver tekur við af honum í ársbyrjun 2025.

Gasverð fylgir olíuverði nokkuð eftir, en ekki er hægt að draga of miklar ályktanir af myndinni um þau áhrif, þar sem annars vegar er olíumarkaðurinn alþjóðlegur og hins vegar er gasmarkaðurinn innri markaður Bandaríkjanna.

Raforkuverð í Evrópu

Raforkuverð á skammtíma uppboðsmarkaði sveiflast mikið og fylgir eldsneytisverði nokkuð eftir, en sveiflast þó mun hraðar og meir samanber mynd hér að neðan..

Framtið2Það eru þó líka  viðskipti á markaðnum á öðru formi, það er að segja fastir samningar og framvirkir samningar sem hafa sín áhrif á það meðalverð sem iðnaður landanna þarf að borga og verð þessara samninga ræðst meir af kostnaðarverði stórra og þungra eldsneytisstöðva sem nýta eldsneyti vel heldur en skammtímaverð. Þetta meðalverð heildsölumarkaðar breytist því hægar. Það verð sem myndin hér að neðan sýnir gefur líklega nokkuð góða vísbendingu um það verð sem fengist fyrir raforku gegnum sæstreng frá Íslandi, þar sem hluti útflutnings yrði samkvæmt föstum samningum.

Framtið3Eins og myndin sýnir fylgir meðalverðið skammtímamarkaðnum nokkuð, sérstaklega í Hollandi sem er beintengt Noregi, en fer heldur hægar. Nú er næsta lítil olía notuð til raforkuvinnslu í Evrópu, en því meira gas, sem er mikið til innflutt, aðallega á langtíma samningum frá Rússlandi.

Þó markaðsverð á gasi elti eðlilega olíuverð er það því stöðugra og það kemur fram í meðalverði heildar markaðar. Þessi stöðugleiki vekur athygli. Meðan skammtímaverðið lækkar um nær helming 2011 til 2016 lækkar meðalverð heildarmarkaðar aðeins um fjórðung. Evrópubandalagið sýnir því að því er virðist nokkuð góðan árangur í að halda raforkuverði í heildsölu stöðugu, sem er mikið hagsmunamál fyrir iðnað svæðisins og mikilvægt fyrir stöðuga samkeppnishæfni hans.

Það vekur einnig athygli, að frá 2011 hafa þessi verð verið of lág til að það borgi sig að virkja á Íslandi og flytja rafmagnið út um sæstreng. Eitthvað mundi sala á grænum vottorðum hjálpa, en niðurgreiðslur yrðu að koma til fyrstu árin. Ef við síðan lítum á grunnspárnar yfir olíuverð og gasverð sjáum við, að þau verð hækka og verða svipuð þeim sem ríktu á fyrri hluta þessa áratugar, þannig að þessar spár gefa ekki vísbendingu um að sæstrengur verði  arðbær fjárfesting með því viðskiptamódeli sem almennt er rætt um í því samhengi.

Samt sem áður leggur ESB mikla áherslu á sæstreng til Íslands, þannig að þeir sjá eitthvað meira en bara beinan útflutning. Þá er um að ræða. að nýta vatnsorkukerfi Íslands til að geyma orku til að flytja út þegar logn er í Evrópu og vindmillurnar snúast ekki. ESB hefur markað sér þá stefnu, að 27% af raforku bandalagsins skuli framleitt með vindmillum og verða sem því nemur óháðari innflutningi á eldsneyti. Þeir hafa nú náð upp í um helming þess marks. Til að ná því að fullu verða þeir annað hvort að byggja léttar gasstöðvar í miklum mæli til að keyra í logninu eða treysta á innflutta vatnsorku frá Skandinavíu og Íslandi. Vatnsorkan verður þá verðmætari því fyrir þá sem nær dregur að þeir nái markmiðinu um hlutfall vindorku.

Sjónarmið varðandi Ísland

Framangreind sjónarmið sýna, að markaðurinn felur í sér mikla efnahagslega óvissu um hagkvæmni útflutnings orku frá Íslandi um sæstreng og bætist sú óvissa ofan á hina tæknilegu óvissu vegna bilana og langs viðgerðatíma. Það er því ekki á vísan að róa með hagkvæmni hans.

Sæstrengur er mjög dýr framkvæmd og það gefur auga leið, að ef stór hluti orkunnar er fluttur út til að bæta upp lognið í Evrópu þarf að auka afl vatnsorkuveranna mikið. Þarna verður því um að ræða miklar fjárfestingar sem eru háðar sömu markaðslegu óvissu og sæstrengurinn.

Talið er, að svo ójafn rekstur jarðgufuvera sem slíkt viðskipti kalla á geti eyðilagt borholur og jarðvarmasvæði á mun styttri tíma en jafn og stöðugur rekstur. Eigi að síður mundu viðskiptalegir hvatar liggja til þess, að jarðvarmaverin yrðu einnig rekin á þennan hátt.

Með ákvæðum þriðja orkupakkans í heild sinni er framkvæmdastjórn ESB veitt umboð til að ákveða lagningu sæstreng og jafnframt skylda Landsnet til að gera þær ráðstafanir í flutningsneti sínu sem þarf til að tengja hann. Kostnaður af þeim ráðstöfunum lendir á íslenskum notendum. Enn fremur verðum við skyld til að koma hér á frjálsum markaði að hætti ESB og þar með munum við þurfa að greiða sama raforkuverð hér og þar ríkir. Markaður af þeirri gerð stuðlar mjög að verðjöfnun milli svæða, en honum er lýst í grein minni  „Rafmagn til heimila og útflutnings á markaði“  á http://hhi.hi.is/vinnupappirar. Slóðin er:

http://hhi.hi.is/sites/hhi.hi.is/files/sjz/rafmagn_til_heimila_og_utflutnings_a_markadi.pdf

Þó hærra verð fáist fyrir orkuna sem flutt er út þegar logn er í Evrópu og vindmillurnar snúast ekki, þá verður að gæta þess, að strengurinn nýtist ver  svo flutningskostnaður yfir hann hækkar á móti. Þannig verður arður af virkjunum minni þar til fjárfestirinn hefur fengið sitt og gjaldskrá tenginets Evrópu tekur við.

Um 80% af raforku okkar fer til stórnotenda og þar er um að ræða markað sem er frekar alþjóðlegur en evrópskur og lágt orkuverð og mikið afhendingaröryggi hefur gefið okkur forskot til að vera á þeim markaði. Við getum ekki keppt við hin stóru iðnfyrirtæki Evrópu á á þeim markaði á grundvelli evrópsks orkuverðs. Þetta gildir bæði um stóriðju og annan iðnað.  

Ljóst er, að sæstrengur á þeim forsendum sem þriðji orkupakkinn kveður á um mun eyðileggja það forskot sem ódýr orka er okkur. Eftir samþykkt orkupakkans höfum við heldur ekki samningsstöðu til að krefjast þeirra trygginga sem við þurfum vegna viðskiptalegs öryggis fyrir raforkuver okkar. Því getum við ekki bundið þriðja orkupakkann í lög og þar með opnað fyrir að framkvæmdastjórn ESB ákveði upp á sitt eindæmi að hann skuli lagður hvað sem okkar hagsmunum líður.


Stefna ESB í orkumálum og hlýnun jarðar

OrkubúskapurESB 

Orkubúskapur

ESB er efnahagslegt stórveldi og hefur þá stöðu í heiminum vegna iðnvæðingar sinnar. Þessari stöðu verður umfram allt að halda, en það merkir, að iðnaðurinn verður að vera samkeppnishæfur við iðnað annarra svæða. Varðveisla þessarar samkeppnisstöðu gengur eins og rauður þráður í gegnum alla stefnumörkun ESB, sérstaklega í orkumálum þó því sé ekki mikið flaggað í opinberum málflutningi. Þar þykir vænlegra að leggja áherslu á baráttuna við hlýnun jarðar til að réttlæta þær ráðstafanir sem gerðar eru. Þannig hefur náðst betri árangur í að sannfæra fólk um að rétt sé að málum staðið.

Meðfylgjandi mynd sýnir hlut ESB í vinnslu og innanlandsnotkun ríkja heimsins (heimild EU; Energy in figures 2018) Þar kemur í ljós, að bandalagið var með 5,5% af framleiðslu heimsins en 11,9% af innanlandsnotkuninni 2016. Sama ár fluttu þeir inn 70,4% af gasi (LNG) og 61,2% af kolum (hörð kol). Bandalagið er því mjög háð innflutningi, mun háðari en helstu keppinautarnir Bandaríki NA og Kína.

Þetta er kvíðavænleg staða fyrir iðnveldi í í heimi með þverrandi orkulindir og ekki síður fyrir fjármálaveldið þar sem á iðnaðinn og byggir tilveru sína á honum. Bandalagið verður greinilega að minnka orkunotkun sína með því að hvetja til annars vegar orkusparnaðar og hins vegar öflugra rannsókna á nýjum orkulindum. Hvort tveggja næst fram með hækkun orkuverðs og boðun enn meiri hækkana, en það virkar vel í saman markaðshagkerfi.

Stór hluti eldsneytisnotkunar ESB fer til til vinnslu raforku og þar þykir vænlegast að ná góðum árangri þó aðrir geirar séu ekki undan skyldir.  Bandalagið er með í gangi öflugar rannsóknir á hefðbundnum kjarnaofnum, sem beinast að því að fjöldaframleiða þá. Slík fjöldaframleiðsla gæti lækkað kostnað kjarnorkuvera um 20 til 30% hefur undirrituðum virst raunhæft af lestri á netinu. Bretar, sem nú eru á leið út úr bandalaginu hafa hug á annarri tækni, en stefna líka á fjöldaframleiðslu. Þá er bandalagið með í gangi heimsins stærsta rannsóknarverkefni á sviði kjarnasamruna.

Það tekur langan tíma að ná fram nauðsynlegum breytingum og aðlögun bæði almennings og iðnaðar. Á sama tíma þarf að halda uppi samkeppnisstöðu iðnaðarins gagnvart helstu keppinautum og það er ekki létt verk.

Hlýnun jarðar.

Það er ekki auðveldi að koma tímanlegum ráðstöfunum fram í ríkjum bandalagsins á grundvelli heimsendaspár um endimörk eldsneytisvinnslu, þar sem málflutningurinn mundi nánast hljóma sem uppgjöf fyrir hinu óhjákvæmilega. Þó engin dómur sé hér lagður á réttmæti kenningarinnar um hnattræna hlýnun á ábyrgð mannsins kemur hún nánast inn sem himnasending fyrir stjórnvöld ESB í stöðunni.

Því sem maðurinn veldur getur hann breytt. ESB hefur því tekið forystu í baráttunni gegn hlýnun jarðar og hefur gengið lengst þjóða í að lýsa yfir vilja til niðurskurðar á kolefnalosun út í andrúmsloftið. Þar er miðað við 27% niðurskurð fyrir 2030. Jafnframt hefur ESB gengið ötullega fram á loftslagsráðstefnum Sameinuðu þjóðanna og leitast við að fá aðrar þjóðir til að setja sér svipuð markmið. ESB mun þó ekki skuldbinda sig fyrr en aðrar þjóðir eru tilbúnar til þess líka. Helstu keppinautarnir Kína og USA er erfiðir í taumi. Kína hefur ekki tekið í mál að hefjast handa strax, en stendur þess í stað í stórfelldri uppbyggingu kolaorkuvera. Bandaríkjaþing hefur ekki tekið í mál að samþykkja neinar skuldbindingar, en þar hefur þó náðst verulegur árangur í niðurskurði kolefnalosunar enda mörg fylki Bandaríkjanna mjög ákveðin í þeim málum. þannig var frá Parísarsamkomulaginu gengið, að Obama forseti hafði vald til að samþykkja það og Trump hefur nú sagt sig frá því. Því hefur markmiðum Parísarsamkomulagsins ekki enn verið breitt í skuldbindingar eins og átti að gerast á loftslagsráðstefnu í Póllandi fyrir nokkru.

Það er ekki um það deilt, að jörðin hefur hlýnað á undanfarinni öld, en stóru spurningunni, hve mikið af þeirri hlýnun er vegna athafna mannsin hefur þó ekki verið svarað á óyggjandi hátt. Margir þeirra vísindamanna sem hafa sett sig inn í kenninguna og hafa staðgóða þekkingu á eðlisfræði og stærðfræði telja ekki vera um neina sönnun að ræða fyrir þeim tölum sem nefndar hafa verið um áhrif losunar gróðurhúsagasa, en nú er helst rætt um 2,5°C í því sambandi ef ekki eru gerðar róttækar ráðstafanir. Þessir menn vilja láta báða hópa njóta vafans, þá sem telja allt þetta mál stórkostlega blekkingu eða áhrifin svo lítil, að maðurinn geti ekkert gert sem um munar til að minnka þau og hina sem leggja fullan trúnað á kenninguna.

Svo er það stóri hópurinn sem ekki hefur þá menntun á nákvæmlega réttum sviðum að þeir telji sig geta lagt óháð mat á hlutina. Þeir verða að velja sér aðila til að trúa og Sameinuðu þjóðirnar með loftslagsnefndina í broddi fylkingar er stórt nafn í því samhengi.

Loftslagsnefndin,  IPCC (Intergovernmental Panel on Climate Change) er alþjóðleg stofnun, sett á fót 1988 af umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna (UNEP) og alþjóða veðurfræðistofnuninni (WMO) til að sjá þjóðum heims fyrir skýrri sýn á stöðu þekkingar og vísinda er lúta að veðurfarsbreytingum ásamt afleiddum umhverfisáhrifum og efnahagslegum samfélagsáhrifum þeirra. Þessi aðgerð WMO og UNEP var samþykkt af allsherjarþingi SÞ sama ár. IPCC fer yfir og metur allt hið nýjasta af vísindalegu framlagi heimsins á sínum sviðum, en framkvæmir hvorki neinar rannsóknir sjálft, né hefur eftirlit með gögnum eða grunn stærðum. Aðildarríki eru 195. Þar koma saman hin tæknivæddu iðnríki sem vilja tryggja áframhald menningar sinnar, sem byggir á mikilli orkunotkun (m.a. ESB-ríkin), ríki sem eru að ná iðnríkjunum vilja tryggja, að þau geti áfram farið sínu fram og ríki sem eru efnahagslega illa stödd sækjast eftir stuðningi. Það fer ekki hjá því, að þarna sé þung pólitísk undiralda.

IPCC gefur reglulega út úttektarskýrslur þá síðustu, AR5 árið 2014. AR6 mun koma út 2022 og næsta loftslagsráðstefna verður 2023. Úttektarskýrslurnar greina frá vinnu innan þriggja sérhæfðra vinnuhópa, um vísindalegan grundvöll, afleiðingar breytinga og mildandi áhrif. Auk þess er gefin út samantekt fyrir stefnumótendur og er það áhrifamesti partur skýrslunnar og sá partur sem mest endurspeglar stefnu IPCC.

Fjölmiðlar sækjast mest eftir að birta niðurstöður um hrikalegar afleiðingar breytinga og gera þá í leiðinni harðar kröfur um mildandi ráðstafanir. Þetta ásamt því, hvernig stjórnmálaöfl hafa nýtt sér þetta starf hefur valdið því, að boðun og eftirfylgni baráttunnar gegn hlýnun jarðar hefur fengið á sig trúarlegan blæ, sem hefur skaðað hið vísindalega grundvallar starf sem þarna fer fram og ef til vill skekkt áherslur í baráttunni. Þannig sátu meðal annars rannsóknir um þátt úthafanna í loftslagsbreytingum lengi á hakanum og ráðstafanir í raforkugeiranum hafa reynst bera minni árangur en almenningur hefur haft ástæðu til að vona. Alt er þetta að líkum þegar þessi vettvangur er orðið undirlagður pólitískri baráttu ríkja heims um efnahagslega stöðu.

Vísindamenn hafa á áranna rás töluvert lækkað mat sitt á umfangi þeirrar hlýnunar sem losun gróðurhúsagasa veldur, en enn hefur mikilvægustu spurningunum þó ekki verið svarað svo að svarið geti talist vísindalega sannað, en þær eru: 1) Hve mikil er ábyrgð mannsins á hlýnun síðustu aldar; 2)  hvað getur hann mildað áhrif gróðurhúsagasanna mikið með ráðstöfunum sínum og 3) hvert er svið áhættunnar af samanlögðum áhrifum náttúrunnar og aðgerðum manna.

Í samantekt IPCC á AR5 er fyrstu spurningunni svarað á þann veg, að yfirgnæfandi líkur séu á, að meir en helmingur hlýnunar síðustu aldar séu af manna völdum. Þegar þess er gætt, að enn hefur ekki tekist að finna stærðfræðilega lýsingu á áhrifum sjávar til að nota í loftslagslíkönum og heldur ekki á áhrif sólar og skýjafars er þetta ekki mjög sannfærandi svar, en fyrir hinn almenna mann er það mjög gildishlaðið.

Íslensk sjónarmið

Á Íslandi hefur lengi verið mikill vilji til að bregðast við hlýnun jarðar með minnkun á  notkun eldsneytis og fleiri ráðstöfunum. Hlýnunin er þó aðeins smávægilegt vandamál hér. Okkar mál hafa frekar snúist um að nýta þau gæði sem hlýnunin hefur í för með sér eins og göngur nýrra fiskistofna á miðin og nýting aukinnar jökulbráðnunar í ám landsins. Til dæmis tekur Landsvirkjun, að tillögu þess sem þetta skrifar mið af hlýnandi veðurfari við áætlanir sínar um orkugetu framtíðar.

ESB stjórnar hækkun orkuverðs vegna hlýnunar hjá sér með álögum og þær hækkanir eru ótímabærar fyrir okkur. Þó ESB sé mikilvægur markaður þá er afgangurinn af heiminum okkur enn mikilvægari og við þurfum ekki síður að gæta samkeppnistöðu okkar í þeim heimshlutum.

Þurrð eldsneytisbyrgða heimsins verður vandamál hér eins og annarstaðar þegar eldsneytisverð fer að hækka, jafnvel mjög hratt og skyndilega eins og markaðsverð gera iðulega þegar framboð vöru minnkar. En það gildir sama hér og varðandi hlýnunina, vandamálið er ekki tengt raforkugeiranum, heldur samgöngum, fiskveiðum og flutningum milli landa. Þar þurfum við að láta til okkar taka og það mun kosta ærna fjármuni.

Við keppum ekki á alþjóðavettvangi með orkuverðum ESB eins og orkupakkinn mun þvinga okkur til þegar fram líða stundir. Orkuverð hér verða að taka mið af samkeppnistöðu á öðrum vettvangi og þar mun okkur ekki veita af því forskoti sem auðlindir okkar gefa okkur. Við getum því ekki átt fulla samleið með ESB í þessu máli og verðum að hafna þessum pakka.  


Stefna ESB í orkumálum og orkupakkinn

Inngangur

Kolabandalagið (1951), fyrsta bandalagið sem stofnað var eftir heimsstyrjöldina síðari til að tryggja frið í Evrópu náði aldrei almennilega flugi. Efnahagsbandalag Evrópu (EBE) var síðan stofnað með Rómarsáttmálanum 1958 og er það talið upphaf Evrópusambandsins (ESB). Bæði Kolabandalagið og EBE voru síðan innlimuð í ESB með við stofnun þess með Maastricht-samningnum 1992. Einn arfur Kolabandalagsins eru dómafordæmi frá dómstól þess, en þau gilda enn á EES svæðinu.

Upphaflega var ESB byggt upp sem yfirþjóðleg stofnun sem mundi gera stríð bæði óhugsandi og efnislega ómöguleg og tryggja lýðræði í aðildaríkjunum að mati frumkvöðla þess. Eina besta tryggingin fyrir friði er enn talin vera jöfnuður í lífskjörum íbúa svæðisins. Jöfnun orkuverðs í Evrópu er því mikilvægur þáttur í að jafna lífskjör íbúa svæðisins vegna þess hve orkuverð og þá sérstaklega raforkuverð er mikið tengt efnahagslegum framförum. Því er sú jöfnun ásamt hagkvæmni mikilvægustu þættir í raforkustefnu ESB frá upphafi. Fleiri atriði hafa þó afgerandi áhrif á stefnuna í dag.

Þurrð orkulinda

Rómarklúbburinn frægi sendi frá sér skýrsluna „Endimörk hagvaxtar“ 1972 og spáði nánast heimsendi, að margra mati með því að þurrð orkulinda heimsins mundi valda stöðnun hagvaxtar og síðan hnignun innan tiltölulega skamms tíma. Síðan þá hafi fundist meiri birgðir eldsneytis í jörðu svo heimurinn er enn í svipaðri stöðu og þá hvað sannaðar birgðir varðar. Mögulegar ósannaðar byrgðir eru taldar af sömu stærðargráðu, en það verður þó æ dýrar að virkja ný svæði til að viðhalda stærð þess forða sem við köllum sannaðar birgðir. Þessi þróun sést í hnotskurn ef hugað er að olíusögu Norðmanna, sem hófst í Norðursjó en hefur síðan færst norðar á æ dýrari svæði.

Væntanleg þurrð orkulinda heimsins er ekki umdeild, en gagnvart ESB hefur hún fyrst og fremst áhrif á þróun samkeppnisstöðu bandalagsins gagnvart þeim svæðum heims sem eru ríkari af auðlindum eldsneytis en Evrópa og ógnar þannig stöðu ESB sem iðnveldis og fjármálaveldis.

Þó kenningin um endimörk eldsneytis sé almennt talin sönn, þá vakti hún aldrei þann ótta hjá almenningi sem réttlætt gæti róttækar ráðstafanir til breytinga á orkunotkun. Óttinn við hið eðlilega svar, kjarnorkuna var enn meiri. Annað þurfti að koma til.

Veðurfarsbreytingar

Þó óttinn viðkjarnorkuna hafi lítið minnkað í Evrópu er það málefni mun minna rætt nú um stundir, en hættan á hlýnun jarðar af manna völdum því meira. Ekki þarf að lýsa þeirri kenningu, svo kunn er hún. Umræðan um hana líkist oft meir umræðu um trú en um vísindalega kenningu  og hún er vissulega umdeild.

Í þessari umræðu koma upp sömu hagsmunir að mati umhverfissinna í forystu þeirra sem vilja minnka losun koldíoxíðs við raforkuvinnslu og hinna, sem sjá frekar ógn í fyrirsjáanlegri þurrð eldsneytis. Báðir vilja hækka orkuverð sem mest til að knýja fram orkusparnað og hvetja til aukinna rannsókna á nýjum orkugjöfum.

Hnattræn hlýnun er hins vegar talin hafa meiri stríðsógn í för með sér og fólksflutninga sem núverandi flóttamannavandamál Evrópu gefur smjörþefinn af. Umfang þeirra áhrifa sem kolefnalosun veldur er meira um deilt, en nú telur IPCC (milliþinganefnd Sameinuðu Þjóðanna um loftslagsmá) að hlýnunin af  manna völdum verði um 2,5°C ef ekkert verður að gert, meðan aðrir nefna 1,5°C. Munurinn á þessu tvennu er mikill ef litið er á áhrifin, en einnig sá, að ef menn aðhyllast minni töluna, þá er augljóst að þær ráðstafanir sem gerðar eru í raforkumálum munu litlu sem engu skila.

Sem ógn hefur hnattræn hlýnun haft miklu meiri slagkraft í allri umræðu. Umhverfissjónarmiðin eru því væntanlega sterkari og fá því ráðið, að ekki er ráðist í markvissa uppbyggingu kjarnorkuvera í ESB, þótt það sé eðlilegt svar við báðum þeim ógnum sem um hefur verið rætt hér að framan. Hins vegar er þurrð orkulinda slík ógn fyrir ESB, að bandalagið mun seint slá af um stefnuna þótt vísindamenn lækki mat sitt á  áhrifum kolefnalosunar.

Innri orkumarkaðurinn

Orkumál voru eitt af fagsviðum EBE frá samkvæmt Rómarsáttmálanum, en markaðsvæðing hófst þar ekki fyrr en eftir einkavæðingu Breta á orkugeira sínum. Upphaflegu hugmyndirnar með innri raforkumarkaðnum voru að tengja saman Norður- og Suður-Evrópu og nýta þau miklu samlegðaráhrif sem þar var að hafa til sparnaðar í fjárfestingum. Jafnframt skyldi markaðsvætt og einkaframtakið látið um fjárfestingar til að tryggja sem mesta hagkvæmni. Einnig var horft til skattlagningar kolefnalosunar og niðurgreiðslna á umhverfisvænni orku, það er vindorku, sólarorku og orku úr lífrænu eldsneyti. Löggjöf á sviði orkumála byggði þá á valdsviði ESB varðandi hinn sameiginlega markað með vöru og þjónustu og á sviði umhverfismála.

Það var ekki fyrr en 2005 sem Evrópuráðið samþykkti sameiginlega stefnu ESB í orkumálum og Lissabonsáttmálinn frá 2007 inniheldur ákvæði um samstöðu í málefnum varðandi orkuöflun og breytingar á orkustefnu. Eftir sem áður eru mörg fagsvið sem snerta orkumál á valdi meðlimaríkja og framþróun stefnunnar krefst samvinnu.

Í þriðja orkupakkanum er stefnan útfærð nánar og þar er aðaláherslan sem fyrr á að byggja upp tenginet Evrópu. Nýtt er hins vegar það,  að auka skilvirkni eftirlits með því að rjúfa boðvald ríkisstjórna aðildaríkjanna yfir eftirlitinu og regluverki raforkugeirans. Í því skini er stofnað til hlutverks landsreglara, sem skal hafa vald til að setja reglugerðir og vera í raun framkvæmdavald hliðstætt ráðherra og óháð ríkisstjórn. Landsreglarinn hefur lögbundin markmið um að vinna að tengingu við tenginet Evrópu (hér sæstreng) og koma á virkum markaði, en virkni slíks markaðar er skilgreindur í tilskipun ESB.  Hann skal og vinna náið með ACER, sem sumir kalla orkustofnun Evrópu. Landsreglarinn hefur ríka upplýsingaskyldu gagnvart ACER og framkvæmdastjórninni, sem geta þá gripið inn í gegnum ESA/EFTA-dómstól þyki þeim framgangur markmiða eða annarra mála ekki í samræmi við reglugerðir ESB. Framkvæmdastjórninn skal í umboði ríkjanna  hafa framkvæmdavald yfir nýjum millilandatengingum og geta gert fjárfestingar í flutningsnetum einstakra ríkja sem nauðsynlegar eru þeirra vegna að forgangsverkefnum rekstraraðila. Framkvæmdastjórnin hefur einnig  svigrúm til að gefa landsreglurum bein fyrirmæli um hvernig þeir skuli haga störfum sínum með því að gefa út og tengja við tilskipun um orkupakkann sem viðbætur leiðbeiningar (guidelines) til þeirra sem þeim ber að fara eftir. Rætt er að setja upp svokallað „Smart Grid“ sem hefur þann eiginleika að geta stjórnað einstökum virkjunum sjálfvirkt. Orkukerfinu yrði þá stjórnað af tölvum innan ESB og auðlindastýringu yrði ekki við komið hér á landi.

Þarna er í raun um að ræða sívaxandi miðstýringu framkvæmdastjórnarinnar yfir orkukerfum aðildarríkjanna. Hér á landi eru orkuauðlindirnar í raun hluti orkukerfisins og eign virkjunaraðila, þannig að miðstýringin mun ná yfir stjórnun þeirra líka.

Í framkvæmd er fjár til niðurgreiðslu umhverfisvænnar orku hagað á þann veg, að smásala gegnum dreifiveitur er skattlögð svo áhrif á heildsölumarkað verði sem minnst, en á þeim markaði fá iðnfyrirtæki Evrópu orku sína. Samkeppnisstaða iðnaðar Evrópu er þannig vernduð, enda augljóst, að það hlýtur alltaf að verða rauður þráður í framkvæmd stefnu ESB og hagsmunir iðnaðar Evrópu teknir fram yfir hagsmuni annarra notenda rafmagns. Með þeirri verðjöfnun sem leiðir af fullnustu tenginetsins mun myndun virðisauka vegna raforkunotkunar færast frá jaðarsvæðum eins og Íslandi til iðnaðarkjarna Evrópu, enda viðurkennir ESB ekki, að fjarlægð frá markaði hafi áhrif á samkeppnisstöðu iðnaðar innan ESB/EES svæðisins og er í því stutt af ESA.

Íslensk sjónarmið

Þau vandamál sem raforkustefnu ESB er ætlað að takast á við eru svo risavaxin, að sjálfbærni lítils þjóðfélags hér uppi á Íslandi verður hreint aukaatriði í þeim samanburði. Við getum einfaldlega ekki vænst þess að fá neinar svo bitastæðar undanþágur frá orkulöggjöf ESB að okkur verði kleift að lifa við hana skaðlaust. Ljóst er einnig, að búast má við hörðum viðbrögðum frá ESB verði pakkinn felldur.

Það er ljóst að framkvæmd orkustefnu ESB hér mun draga þrótt úr íslensku atvinnulífi til frambúðar og hann verður að fella. Beri Alþingi gæfu til að dæma það framsal valds yfir auðlindum okkar sem í pakkanum felst vera ósamrýmanlegt stjórnarskrá getur ESB lítið annað gert en ógilda viðaukann um orkumál gagnvart okkur. Það sem tapast væri helst tekjur af sölu upprunavottorða, sem væri lítið í samanburði við það tjón sem ella yrði í atvinnustarfsemi hér á landi. Samstarf á öðrum sviðum má ekki skerðast samkvæmt EES samningunum.


Grein Ara Guðjónssonar: EES-samstarfið í uppnámi?

Greinin birtist í Viðskiptablaði Morgunblaðsins  3. Janúar 2019

Hofundur greinarinnar er lögmaður og yfirlögfræðingur Icelandair Group og verður því að teljast hluti af fjármálaelítunni hér á landi. Einn rauði þráðurinn í löggjöf ESB varðandi raforkumál er að tryggja fjárfestum viðunandi arð og nægar tryggingar svo einkafjármagnið leiti í greinina. Þetta hefur í för með sér hækkun arðkröfu í raforkugeiranum og þar með hærra raforkuverð en ella og jafnframt tryggingu þess, að notendur raforku, sem eru allir þegnar þjóðfélagsins greiða allan kostnað og bera alla áhættu af öllum fjárfestingum í greininni, annað hvort gegnum markaðsverð, gjaldskrár flutnings og dreififyrirtækja eða skatta. Löggjöf ESB útfærð að fullu hér á landi felur því í sér aukin tækifæri á sviði orkumála fyrir fjárfesta og fjármálastofnanir almennt, sem fá til meðhöndlunar það fé sem bundið er í eignum raforkufyrirtækjanna. Fjárfestar hér hafa lengi haft augastað á raforkufyrirtækjunum sem fjárfestingartækifæri og því eðlilegt að fulltrúar þeirra tali fyrir samþykkt þriðja orkupakkans, sem er töluvert skref í átt til þess að færa alla stjórn raforkuvinnslu hér á landi undir framkvæmdastjórn ESB.

Ari gerir lítið úr því,  að regluverkið myndi fela í sér of víðtækt valdframsal á fullveldi Íslands og telur það ekki standast lögfræðilega skoðun. Andstæðingar orkupakkans halda því hins vegar fram, að þriðji orkupakkinn ásamt viðbótum sem fram eru komnar feli í sér fullt valdaafsal á orkuauðlindum Íslands utan þess valds sem felst í eignarréttinum og verður að sýndarvaldi þegar tekið er tillit til allra þeirra ákvæða sem felast í öðrum þáttum EES-samningsins. Þetta er ekki lítið valdaafsal. Ari bergmálar þarna skoðanir sem hafa komið frá lögfræðingum á vegum ráðuneyta. Spyrja má hvort lögfræðingar almennt telji það í lagi að fullveldi Íslands sé afsalað að fullu með spægipylsuaðferðinni. Helstu stjórnlagafræðingar Íslands, prófessorarnir Stefán Már Stefánsson og Björg Thorarensen telja svo ekki vera.

Ari segir líka: „Meginmarkmið regluverksins er að tryggja frjálsa samkeppni með raforku og gas innan EESsvæðisins.“ Þetta er einfaldlega ekki rétt. Megin markmið regluverksins er að tryggja framkvæmdastjórn ESB alt vald yfir orkumörkuðum fram hjá öllum öðrum stjórnvöldum á ESB/EES-svæðinu.

Það er eitt einkenni málflutnings þeirra lögfræðinga sem vilja samþykkja þriðja orkupakkann, að þeir vitna sem minnst í þau lög sem verið er að innleiða og líta aðeins á einstök lagatæknileg atriði eins og hvort Orkustofnun sé sjálfstæð gagnvart ráðherra í úrlausn mála. Það þykir þeim ekki mikil breyting og Orkumálastjóri er þeim sammála þar um, enda kveðst hann hafa slíkt sjálfstæði í raun, þar sem pólitísk fyrirmæli ráðherra þyki yfirleitt óviðeigandi. Lítum aðeins nánar á þetta sjálfstæði.

Þegar Orkustofnun gegnir störfum landsreglara sem skilgreind eru í tilskipun nr. 72/2009 starfar hún ekki í sama lagaumhverfi og ella. Þá ber henni að vinna að þeim markmiðum sem eru tilgreind í tilskipuninni og tryggja framkvæmd stefnu ESB, hver sem íslensk stefna kann að vera og vinnur þau störf í raun undir eftirliti ACER. Í tilskipuninni segir í 35. grein:

  • „5. Til að vernda sjálfstæði eftirlitsyfirvaldsins skulu aðildarríkin einkum tryggja að:a) eftirlitsyfirvaldið geti tekið sjálfstæðar ákvarðanir, óháð öllum aðilum á sviði stjórnmála, og hafi aðskildar árlegar fjárúthlutanir, sjálfræði við framkvæmd fjárúthlutana, og fullnægjandi mannafla og fjármagn til að sinna skyldustörfum sínum“ [þýðing ESA].

  Þetta virðist vera allmiklu meira sjálfstæði en bara hvað varðar sjálfstæði gagnvart ráðherra í úrlausn mála og spurning er hvort ekki sé einnig um að ræða fullt sjálfstæði gagnvart Alþingi og þeim stefnumarkandi ályktunum sem þar kunna að verða gerðar. Það er líka spurning hvað gerist ef landsreglarinn fær ekki nægar fjárveitingar að eigin mati og framkvæmdastjórnar ESB. Mun þá framkvæmdastjórnin kvarta til ESA eða kæra til EFTA-dómstólsins? Sú leið er greinilega opin. Það er heldur ekki rétt hjá Ara, að Orkustofnun heyri undir yfirstjórn ráðherra í öllum málum. Þegar stofnunin starfar sem landsreglari hefur hún stöðu jafnfætis ráðherra, eða eins og einnig segir í 35. gr. tilskipunarinnar, þá skal hún vera „lagalega aðgreind og óháð öllum öðrum opinberum aðilum eða einkaaðilum að því er varðar starfsemi“ [þýðing ESA].

Hræðsluáróðurinn um útilokun okkar úr EES samstarfinu sem bergmálaður er í greininni hefur aldrei verið rökstuddur einu orði öðru en að við vitum ekki hvað muni gerast. Það er engan vegin eðlilegt né tákn um sjálfstæði þjóðar að hún afsali sér jafn takmarkalaust fullveldi yfir auðlindum sínum eins og gert er með þriðja orkupakkanum og viðbótum hans.

Ef Alþingi telur að samþykkt þriðja orkupakkans standist ekki stjórnarskrá og fellir hann, þá hefur hvorki ESB né aðrar þjóðir EES samningsins nein viðbrögð sem samræmast þeim samningi önnur en fella úr gildi viðaukann um orkumál gagnvart okkur. 


Að selja ofan af sér vald yfir landinu undir fótum okkar

Í Reykjavíkurbréfi morgundagsins gat höfundur þess, að nýlega hefði það verið á dagskrá fundar í bústað forsætisráðherra á Þingvöllum, að undirbúa breytingar á stjórnarskrá  þannig að auðveldara væri að ganga í ESB. Þetta vakti mér ugg. Ekki vegna þess, að ætlunin væri að ganga í ESB sem fyrst, heldur hins, að ætlunin væri að breyta stjórnarskrá í þá átt, að auðveldara yrði að samþykkja valdaframsal og þar með ýmsar tilskipanir ESB á Alþingi, án þess að stjórnarskráin þvældist fyrir.

Í fréttum undanfarið hefur nokkuð verið sagt frá kaupum útlendra fjárfesta á bújörðum þar sem laxveiðiréttindi eru í góðum veiðiám, eða þar sem vænlegt er að reisa hótel og hafa ofan af fyrir ferðamönnum. Ljóst er af fréttum, að margir horfa uggandi á þessa þróun, enda sagt að erlendir aðilar eigi orðið um þriðjung af landbúnaðarjörðum Íslands. Það hefði verið auðvelt, þegar gengið var til samninga um EES að setja einhverjar skorður eins og kvaðir um búsetu á kaupendur jarða eins og tíðkast í öðrum löndum, en þá var forsjáin ekki fyrir hendi. Það virðist einnig af sem áður var, þegar allt var gert sem hægt var til að hindra kínverskan fjárfesti í að kaupa eina stærstu jörð landsins og það tókst.

Hraði þessarar þróunar jókst þegar ferðamannastraumurinn fór stjórnlaust vaxandi og enn hafa yfirvöld ekki náð tökum á atburðarásinni í þeim atvinnuvegi. Þarna er þó ekki stjórnvöldum einum um að kenna. Forsprakkar greinarinnar eiga einnig verulega sök með því þeir hafa af skammsýni þvælst fyrir öllum tilraunum stjórnvalda til að afla tekna af þessum atvinnuvegi svo þau geti komið við einhverju skipulagsvaldi og látið fé fylgja til uppbyggingar nauðsynlegra innviða. Nú eru þessir sömu forsprakkar að missa tækifærin úr höndum sér til erlendra fjárfesta sem hafa ótakmörkuð fjárráð.

Á sama tíma virðist það helsta áhugamál náttúruverndarsinna, að koma undir sína stjórn öllu ósnertu víðerni landsins í nafni friðunar svo það verði ekki virkjað, en horfa fram hjá því, að klossaklæddir fætur ferðamanna geta slitið landi ekki síður en bíldekkin séu þeir nógu margir. Þessir ferðamenn virðast aukin heldur líta svo á, að á ósnertu víðerni geti þeir hent rusli og gengið örna sinna að vild og gera reyndar engan greinarmun á ósnertu víðerni og ræktarlandi bænda ef því er að skipta.

Náttúruverndarmenn sjá heldur engin tækifæri í því, að hafa arðbæra virkjun við eða inni á friðlendum, þar sem skylda mætti virkjunaraðilinn til að styðja við tjaldstæði, ferðamannaskála og aðra aðstöðu og létta þannig verulegu álagi af öðrum hlutum friðlandsins.

Með samþykkt orkupakka ESB, sem stjórnvöld hafa nú orðið að fresta í nokkra mánuði færist þessa sama hætta yfir orkuauðlindir Íslendinga, að erlendir fjárfestar muni sækjast eftir aðgangi að auðlindum og virkjunum um leið og orkuverð á Íslandi fer að hækka. Hrunið setti að vísu þúfu í braut þeirrar þróunar, en hækkandi orkuverð með markaðsvæðingu og tengingu með sæstreng mun til lengri tíma slétta aftur þá þúfuna.

Það, hvort öll þessi óforsjá stafar af óskum valdamikilla aðila í þjóðfélaginu um að þrýsta okkur inn í ESB, hvort stjórnvöld hafi ekki tíma til að hugsa þessi mál vegna anna við að innleiða tilskipanir ESB, eða hvort um er að ræða hreinan heimóttarskap getur legið milli hluta. Það virðist alla vega liggja meira á að gera ráðstafanir til að stjórnvöld þurfi ekki ætíð að missa úr höndum sér stjórn á allri atburðarás varðandi nýtingu þessa lands, sem er heimkynni okkar fremur en undurbúa auðveldara afsal á rétti til landsins og verðmæta þess til erlendra fjárfesta.


Eitt ríkjasamband, ein regla, ein forsætisnefnd

Eftir því sem árin líða finnst manni draumar helstu stjórnenda og stefnumótenda ESB sækja meir og meir í þá hugsýn sem ofanritaður titill lýsir og þessir draumar endurspeglast bæði í þeim viðbrögðum sem sjást þegar einhver ógn gerir vart við sig og því hvernig reynt er að gera EFTA löndin eins lík ESB og hægt er, en þar ræður ESB ferðinni. Sífellt oftar heyrast talsmenn ESB segja, við þurfum að þjappa okkur saman og fela leiðtogum okkar meiri völd. Hvað okkur á hrærir á stjórnarskráin að leggja línurnar um það, hve mikil völd má framselja til ráðamanna annarra landa, en í ljósi síðustu atburða á þessu sviði má spyrja hvort hún sé raunverulega virk lengur. 

Þegar þetta er ritað er nýlokið fyrir Alþingi meðferð frumvarps um persónuvernd, sem innleiðir lög ESB um þetta mál. Þessi lög munu að margra mati stangast á við Íslenska stjórnarskrá að því leyti, að þau fela erlendri stofnun dómsvald á Íslandi. Önnur lög eru í bígerð, en það eru lög um verslun með raforku, sem hafa sömu annmarka og hin fyrri. Fyrir fáum árum voru einnig staðfest lög sem hafa þessa sömu annmarka, en það eru lög um meðferð fjármagns. Þótt löginn hafi öll þennan sama galla í mismiklum mæli, þá er eðli þess sem þau fjalla um misjafnt og misjöfn þörf á að samræma löggæslu ríkja með þessum hætti. 

Þjóðir heims eru sjálfstæðar og hafa kringum sig landamæri svo hafa megi stjórn á fólki og varningi sem fer inn og út úr viðkomandi þjóðríki. Einn er þó sá hlutur sem ekki er unnt að hafa stjórn á með þessari aðferð, en það er fjármagn. Fjármagn, eða réttara sagt eigendur þess leita að bestu tækifærunum til ávöxtunar og virða þá engin landamæri. Fyrir því er eðlilegt, að ríkin leiti leiða  til að sameinast um lög og aðrar aðferðir til að hindra svik og hverskonar misbeitingu fjármagns. 

Persónuvernd er vaxandi krafa fólks í hinum vestræna heimi og beinist ekki hvað síst gegn hringsóli persónuupplýsinga á netmiðlun og notkun þeirra til að hafa áhrif á skoðanamyndun. Það skiptir einstakling á Íslandi auðvitað minna máli hvert orðspor hann hefur í Rúmeníu en hér heima auk þess sem einstaklingar í þessum löndum hafa misjafna þörf fyrir svona vernd, misjafnar ástæður til að krefjast hennar og misjöfn tök á að verja sig sjálfir. Það er því ekki jafn rík ástæða til að koma þessari vernd á með sameiginlegum lögum, en ástæða eigi að síður. 

Með rafmagn gildir allt öðru máli. Rafmagn fer ekki yfir landamæri nema þjóðirnar hafi komið sér saman um að tengja rafkerfi sín og raforkuflutningar eru undir fullri stjórn stofnana viðkomandi ríkja. Ástæðan fyrir setningu sameiginlegra laga um raforkuviðskipti er sú ein, að stjórn ESB telur hagkvæmara að láta eina stofnun stjórna öllu sem við kemur raforkuviðskiptum milli landa innan sambandsins. Ísland er ótengt við önnur lönd og sýnt hefur verið fram á, að þörf er á að hafa önnur grundvallar atriði á í heiðri á markaði hér en gildir í orkukerfi ESB. Það er því algerlega óskiljanlegt hvers vegna við eigum að innfæra lög ESB um viðskipti með rafmagn. Eina sjáanlega ástæðan sem hægt væri að heimfæra er draumurinn: "Eitt ríkjasamband, ein regla, ein forsætisnefnd" 

Öll krefjast þessi lög viðmikillar skýrslugerðar fyrir stjórnvöld ESB, svo hægt sé að greina virkni þeirra hér á landi. Þegar sett er upp leppstofnun fyrir ESB, það er stofnun sem er svo óháð stjórnvöldum, að hún má hvorki þiggja né leita fyrirmæla frá neinu innlendu stjórnvaldi og hefur fjárveitingar sínar beint frá Alþingi, þá eru fyrirmæli í lögunum um hvað skuli teljast verkefni stofnunarinnar og leiðbeiningar frá ESB um hvernig skýrslur skuli gerðar. Fái stofnuninn ekki nægar fjárveitingar til að skýrslur hennar verði óaðfinnanlegar getur forsætisnefndin að sjálfsögðu beitt sér og krafist úrbóta. Sú krafa hlýtur að lenda á Alþingi, sem hefur ekkert um þessa skýrslugerð að segja annað en veita fé. Er ekki þarna smá lýðræðishalli í viðbót við það sem fyrir er? 

Á sama tíma eru annir ráðuneyta við innleiðingu og þýðingu á tilskipunum og reglugerðum ESB orðið svo miklar að vöxtum, að lög á borð við þau sem nefnd eru hér komast ekki fyrir Alþingi fyrr en svo seint, að hvorki gefst tími fyrir stofnanir þjóðfélagsins að veita nauðsynlegar umsagnir, né Alþingi sjálft að yfirfara hin nýju lög á viðunandi hátt. Ekki gefst tími til raunhæfs kostnaðarmats og virðast starfsmenn ráðuneyta ófærir um, að leggja faglegt mat á afleiðingar laganna og bæði ófærir um að kynna sér og óviljugir að ræða faglega áhrif þeirra. Þarna virðist vera að koma upp blind hlýðni við boð ESB. 

Yfirleitt eru þýðingar á lögum ESB samþykktar í kippum og án allrar umræðu í fjölmiðlum. Nú eru þegnar þjóðfélagsins hver og einn að lögum skyldur til að vita sjálfur hvaða lagafyrirmæli gilda um hegðun hans, en fréttir samt ekkert af þessum breytingum nema þá í gegnum lögfræðing sinn hafi þegninn ráð á slíkum. Þegnar landsins hafa annað að gera en lesa Lögbirting í þaula alla daga. Þeir vakna svo upp við það einn góðan veðurdag, að hér er komið upp allt annað lagaumhverfi en þjóðin taldi vera, en það er einmitt sú þróun sem virtir fræðimenn á borð við Stefán Má Stefánsson og Björgu Thorarensen hafa varað sterklega við. 

Ísland er smáþjóð sem býr í erfiðu landi og þarf að eyða hlutfallslega meira fé en aðrar þjóðir í í hluti eins og að tryggja samgöngur milli þegna sinna, rækta jörðina og yfirvinna fjarlægð til markaða. Þessi þjóð hefur ekki efni á öllu því skrifstofuveldi sem núverandi umfang á sambandi okkar við ESB krefst. Þegar svo farið er að glitta í drauminn um eitt ríkjasamband, eina reglu og eina forsætisnefnd hjá embættismönnum skrifstofuveldisins, þá er það kvíðavænlegt.


Á hverju byggja stóru Borgarlínudraumarnir

UmferðOgTafir1Eftir því sem umræðu um Borgarlínu vindur fram, þá virðast það kristallast æ skírar út, að megin undirstöður hinna stóru drauma um Borgarlínu eru tvær, óskhyggja og fræðilegur misskilningur.

Óskhyggjan kemur fram í hinum gamalkunna draumi vinstri manna, að útrýma einkabílnum úr umferðinni í Reykjavík og trú þeirra á þennan draum sést af því hvernig þeir draga jafnan lappirnar þegar kemur að stórum fjárfestingum sem greiða eiga fyrir umferð. Þetta hefur orðið til þess, að innan Reykjavíkur eru nú fjölmörg gatnamót, þar sem tjón vegna umferðaslysa og óhappa er með því hæsta á landinu og mælist kostnaður tjónanna í hundruðum milljóna króna á ári á hverju þeirra. Þeim hefur hingað til tekist að loka augunum fyrir afleiðingum lappadráttar síns og þar á er engin breyting í augsýn.

Hinn fræðilegi misskilningurinn kemur best fram í málflutningi Hjálmars Sveinssonar borgarfulltrúa formanns umhverfis- og skipulagsráðs. Misskilningurinn er fólgin í því, að hann telur það ekki valda neinum samfélagslegum skaða að minnka umferð bíla með því til dæmis að fækka akreinum á umferðagötum. Máli sínu til stuðnings bendir hann á þá staðreynd, að umferðin lagar sig ætíð að hinum nýju aðstæðum og heldur bara áfram þrátt fyrir hrakspár um að allt fari í hnút. Þetta þakkar hann áhrifum þess sem á ensku nefnist „induced demand“ og hann nefnir tilbúna eftirspurn á Íslensku. Þetta segir hann að komi fram í því, að aukið framboð á vegum leiði af sér aukna eftirspurn í formi meiri umferðar. Beint liggur þá við, að líta á það út frá sjónarmiðum hagfræðinnar á þann hátt sem bílstjóri einkabíls gæti gert.  

Til að líta á samspil framboðs og eftirspurnar í umferð þurfum fyrst að setja upp hnitakerfi, þar sem lárétti ásinn táknar neyslu og lóðrétti ásinn kostnað eða greiðsluvilja. Fyrst neyslan. Þegar bílstjóri ekur út í umferðina á vegi tekur bíllinn þar ákveðið rými. Neyslan er í því fólgin, að leggja hald á þetta rými, hér nefnt umferðarými. Eftir því sem umferðin vex, þá hægir á henni og meira er nýtt af tiltæku rými. Kostnaður bílstjórans er að hans mati háður því hve mikið hann tefst í umferðinni og því hægt að nota umferðatafir sem mælikvarða á kostnað og þar með greiðsluvilja bílstjórans. Síðan má gefa sér, að veginn eða mannvirkið megi hanna til að bera tiltekna umferð með tilteknum töfum þannig, að fyrir hvern stað sé til einhlítt samband milli tafa og þess kostnaðar sem lagður er í veginn. Í framhaldi af þessu má draga upp ferla framboðs og eftirspurnar. Ef um er að ræða beinan veg er þó einfaldast að hugsa sér samhengið milli þess fjölda sem er á veginum í einu og tímans sem tekur að keyra hann allan.

Samspil umferðar og umferðabætandi framkvæmda er býsna flókið mál. Hér er reynt að líta á það út frá sjónarmiðum hagfræðinnar á þann hátt sem bílstjóri einkabíls gæti gert. Sérhver bílstjóri hagar sér í umferðinni í samræmi við þann kostnað sem hann sér. Segjum að neysla umferðarýmis og umferðatafir sé eins og lýst er í punkti A á myndinni hér að ofan. Svæðið ofan við lárétti línuna gegnum punkt A og undir eftirspurnarferlinum er talið vera samfélagslegur hagnaður.

Nú dæmum við ástandið í punkti A óþolandi, það er að segja við ákveðum að bæta við akrein. Þar með liðkast fyrir umferðinni og þá flyst framboðsferillinn sem áður lá gegnum A til hægri og liggur nú gegnum B. Sama gerist með eftirspurnarferilinn, því fleiri bílar komast nú fyrir áður en sama kostnaði er náð. Bílstjórum, sem þola þær tafir sem eru í punkti A eða hærri fjölgar þó ekki strax, heldur flykkjast að bílstjórar sem nýta sér lægri kostnað og umferðarástandið færist í það horf sem lýst er með punkti C. Sú fjölgun sem verður við þetta er það sem menn kalla „induced demand“, sem er tiltölulega hröð fjölgun á stuttum tíma. þarna er verið að fullnægja eftirspurn eftir mjög ódýru umferðarrými, huganlega svo ódýru, að það má kalla sóun að koma til móts við það. Bílstjórum sem þola hærri kostnað fer þó fjölgandi eftir því sem fólksfjöldi á svæðinu vex, margir þeirra sætta sig við miklar tafir og ýta þá hinum nýkomnu burt. Ástandið færist þá frá C til B og er þá orðið óþolandi á nýjan leik og öll hugsanleg sóun horfin, en samfélagslegur hagnaður hefur aukist.

Að því er best verður séð, þá er algengt að líta á „induced demand“ sem eiginlega neyslusóun og mönnum hættir til að líta svo á, að þar sem ástandið versnar ekki mikið þótt hin nýja akrein sé fjarlægð aftur og ástandið færist til baka frá B til A, þá sé eingöngu verið að minnka sóun, en þetta er misskilningur. Sóuninni hefur þegar verið útrýmt af verðmætari umferð, eins og umferð flutningabíla sem er nauðsynleg til að halda starfsemi fyrirtækja í samfélaginu gangandi.

Þetta er sá fræðilegi misskilningur sem lesa má úr málflutningi Hjálmars Sveinssonar og bergmálar í málflutningi þeirra sem vilja sjá þá framkvæmd sem fyrst. En þar virðist líka gæta annars misskilnings, sem er sá, að almenningssamgöngur geti komið í stað bílaumferðir, en svo er ekki. Strætó er ekki nýttur til vöruflutninga og kemur eingöngu í stað einkabílsins til fólksflutninga á afmörkuðum svæðum.  

Samgöngur er það sem nútíma þjóðfélag byggir á framleiðni sína og velferð þegnanna. Samgöngur hafa veruleg áhrif á byggðaþróun og líka þróun borga. Borgarlína er veruleg fjárfesting, sem ætlað er að taka allt að tvö ártugi, en á hinn bóginn eru tveir áratugir síðan Reykjavík fór fyrst að draga lappirnar í fjárfestingum í umferðamannvirkjum. Það er því hugsanleg hætta á, að með sama áframhaldi muni koma tímabil þegar hvorugt kerfið hefur viðunandi virkni og hnignun hefjist á einhverjum svæðum í Reykjavík. Hefjist slík þróun getur orðið erfitt að snúa aftur af þeirri braut.

Ekkert er hægt að álykta eftir þessari athugun um þjóðhagslegan arð af flutningum með bílum um vegi, en sá arður kemur helst fram í framleiðslu í þjóðfélaginu.


Borgarlínuumræðan

Það er nú ekki íkja langt síðan ritskúmur þessi fór að útbreiða skoðanir sínar á netinu, varlega í fyrstu, enda komu þá engin mótmæli sem heitið gat neinssaðar frá, bara hvatning. Þetta átti þó eftir að breytast. Skúmurinn gerðist djarfari, vakti aðra netbúa fjótt til andsvara og hefur nú að líkum fengið á sig stimpi, ef ekki marga slíka fyrir sérvisku og kreddufestu. 'Sic transit gloria mundi!

Ritskúmurinn leiddist síðan út í það, að fara að tjá sig á síðu þar sem rætt var um Borgarlínu og færðist nú fjör í leikinn. Nú skyldi sýna, að hér ríkti víðsýnið og rökhyggjan og enginn skortur skyldi vera á uppbyggjandi athugasemdum. Hmmm! Fljótlega hröklaðist fuglræfillinn út í horn undan athugasemdum eins og Sannaðu mál þtt", "Komdu með heimild", "Lestu þetta" og svo framvegis. Aumingja ritskúmurinn átti ekki nema eitt ráð, að mynda sér skoðun í kvelli og ybba síðan gogg af öllum mætti meðan hann tók pólinn í hæðina. 

Í ljós kom, að af nokkur hundruð meðlimum síðunnar voru fáir að tjá sig, flestir þeirra með fast mótaðar skoðanir og af þeim margir sem ekki vildu ræða málin, aðeins láta sína skoðun yfirgnæfa. Hæst lét þó í bergmálshellinum.

Borgarlínan er mál, sem þróað er hjá samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Þetta eru 6 sveitarfélög með það langstærsta, Reykjavík í broddi fylkingar. Hinum 5 minni stjórna að sögn sjálfstæðismenn, en Reykjavík stjórnar vinstri meirihluti undir forystu samfylkngarmannsins Dags B Eggertssonar, sem í þessu máli styðst mikið við félaga sinn í borgaratjórn, Hjálmar Sveinsson. Kynning malsins og ábyrgð lent fyrst á þessum mönnum. 

Þetta mál er spunnið úr tveim þáttum. Sá fyrr er gamall draumur um skjólgóða borg með mannlíf á götum og bíla í bakgrunni, með latttetorg á götuhornum þar sem sólin er ekki jafn velkomin skugganum, hvar sitja lepjandi listamenn fremjandi list hver fyrir annan. Þetta var hinn fjarlægi draumur hvers einasta íslendings sem hafði keypt sér bíldruslu svo hann mætti komast út á lóð sína i úthverfi og byggt þar hús sitt. Fyrst var flutt inn í hráa steypuna, pússað og málað og garðurinn ræktaður þar til upp var risin glæsihöll með kartöflubeð í bakgarðinum og krakkana kjagandi í kring og auðvitað engin tími fyrir drauminn. Flestir telja nú draum þennan óraunsæjan, nema hópur vinstri manna sem enn sér hann í hillingum og eiga nú sína fulltrúa í borgarstjórn í þeim Degi og Hjálmari.

Hinn þátturinn kemur frá vaxandi umferðateppum á samgönguæðum í Reykjavík sem hindrar íbúa grannbæjanna í því að komast til vinnu sinnar og börn þeirra í að komast til skóla. Þarna er augljóslega þörf á betri almenningssamgöngum og jafn augljóst er, að þær verða að fá meira rými á vegum. Í þessum þætti speglast hin upphaflega Borgarlínuhugmynd.

Þessir þættir spunnust saman og úr varð hrein ógn. Allt að 200 milljarða fjárfesting í léttlest, ekki bara milli Reykjavíkur og grannbæjanna, heldur einnig innan Reykjavíkur. Þessu fylgdi breytt skipulag og þétting byggðar umhverfis breytt mannlíf kringum glæsilegar biðstöðvar lestar eða hraðvagna. Það fyrsta sem vakti athyglina var þó ekki þetta, heldur hinn skefjalausi glansmyndaáróður og framsetning á tölum sem hlutu að villa um fyrir hverjum þeim sem reyndi að bera þær saman, eins og  greinilega var ætlast til.

Í þessum upprunalegu kynningum fæddust svo umræðupunktar og slagorð sem hafa bergmálað á vefnum síðan. Þar má nefna hluti eins og að breyta þurfi Reykjavík úr þeirri bílaborg sem hún er, að vegna Borgarlínu muni sparast stórkostlegir fjármunir í umferðamannvirkjum eins og mislægum gatnamótum, að þjóðin muni af sömu ástæðu spara ógrynni fjár með minni bílakaupum og það hafi verið stórkostle mistök á sínum tíma að skipuleggja Reykjavík sem bílaborg.

Fyrst í umræðunni var auglýsingaskýrslum um Borgarlínu skvett fram ásamt samskonar efni erlendis frá í löngum bunum. Allt fer þetta samt þverrandi nema bergmálið og frá sumum sést orðið ekkert nema bergmál og hnjóð á þá sem eru annarrar skoðunar. Þessir síðustu hafa þó heldur orðið minna áberandi og komið aðrir sem eru nægilega ósammála til að ræða málin, en nú með sýn á fleiri sjónarmið. Þeta er líklega það sem kallast að umræðan þroskist.

Hvað varðar Borgarlínuna sjálfa, þá hefur hún solítið breist. Hin dýra léttlest er ekki lengur upp á borðum og komið er í ljós, að Borgarlínan kemur ekki alfarið í stað ýmissa umferðamannvirkja. Hún er smátt og smátt að færast nær sinni upprunalegu hógværu hudmynd, að flytja fólk á milli staða á hagkvæman hátt, en þangað er nokkur spölur enn. Það hins vegar, hvernig þeir félagar Dagur og Hjálmar hafa stýrt málum hefur valdið þvi, að sennilega er töluvert erfiðara fyrir okkur að takast á við það, að hakda annarri umferð gangandi meðan við innleiðum einhvers konar Borgarlínu nú en var fyrir 5 árum síðan. Sennilega verðum við að taka svona 3 til 5 ár í, að ná stöðunni upp í viðunandi horf og átta okkur betur á framtíðinni.

  


Um bloggið

Elías B Elíasson

Höfundur

Elías B Elíasson
Elías B Elíasson
Verkfræðingur
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • Framtið3
  • Framtið2
  • Framtið1
  • Framtið3
  • Framtið2

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.3.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband